Íransforseti í Columbiaháskóla

Á fyrirlestri Mahmoud Ahmadinejad í Columbiaháskóla síðastliðinn fimmtudag sá túlkur um að snara orðum forsetans úr persnesku í ensku. Þrátt fyrir það fór lítið fyrir skilningi á milli forsetans og viðmælenda hans.

Síðastliðinn fimmtudag stóð Columbiaháskóli fyrir fyrirlestri forseta Íran, Mahmoud Ahmadinejad. Fyrirlesturinn var þáttur í fyrirlestraröð sem School of International Affairs (SIPA), ein af deildum háskólans, stendur fyrir á hverju ári samhliða allsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna. Þetta árið töluðu auk Íransforseta forsetar Chile, Turkmenistan og Malawi.

Fyrirlestur Íransforseta var því ekki svo óvenjulegur í sjálfu sér, en viðbrögðin voru sterk. Ákvörðun háskólans sætti umtalsverðri gagnrýni og þótti mörgum sem verið væri að gera Íransforseta óþarflega hátt undir höfði með boðinu. Bandarísk dagblöð, sem sum hver hafa líkt forsetanum við skrattan sjálfan og gefið í skyn að hann sé veill á geði, voru á móti því að forsetanum væri boðið upp á vettvang til að predika boðskap sinn.

Eins og fram hafði komið fram í boðinu til forsetans opnaði Lee Bollinger, rektor háskólans, umræðuna með „erfiðum áskorunum,“ sem vörðuðu bæði innanríkismál Írans og utanríkismál. Meðal þeirra mála sem rektorinn bar upp voru aftökur Írana á einstaklingum undir lögaldri, réttindi kvenna, hörð meðferð Írana á samkynhneigðum, yfirlýsingar forsetans um útrýmingu Ísraelsríkis og kjarnorkuvopnaáætlun Írana.

Ræða rektorsins var hnitmiðuð, en nokkuð harðorð, og sagði hann meðal annars að forsetinn „bæri einkenni lítilvægs harðstjóra.“ Þetta sjónarmið er í sjálfu sér skiljanlegt í ljósi þeirrar atlögu sem stjórnvöld í Íran hafa lagt að einstaklingsfrelsi á undanförnum misserum. En orðalagið var í þessu tilfelli taktlaust og dónalegt, og grunar marga að með þessu hafi rektorinn verið að reyna að friða þá sem harðast mótmæltu heimsókn forsetans.

Forsetinn hélt síðan sína ræðu, og svaraði í kjölfarið spurningum fundargesta. Meðal þess sem fram kom í máli forsetans var að Íranir væru fórnarlömb hryðjuverka, ekki síður en stuðningsmenn þeirra, og að nauðsynlegt væri að komast að rótum þess vanda sem orsakaði hryðjuverkaárásir. Einnig hélt hann því fram að í Íran væru engir samkynhneigðir einstaklingar, við nokkra kátínu fundargesta. En það var ekki síður athyglisvert hvað ekki kom fram í máli forsetans. Meðal annars neitaði hann að svara spurningu um hvort hann eða írönsk stjórnvöld sækist eftir eyðingu Ísraelsríkis, og hann fór undan í flæmingi þegar hann var spurður um afstöðu sína til þess hvort helförin hefði átt sér stað í raun og veru.

Í eftirmála þessarar heimsóknar hefur lítið farið fyrir umræðu um efnisatriði þau sem fram komu í fyrirlestrinum. Nokkuð hefur verið rætt um dónaskap rektorsins og eins um afneitun forsetans á samkynhneigð. Í fréttaflóði nútímans er ekki tími fyrir mikið meira, og umfjöllun fjölmiðla um málið segir yfirleitt meira um fjölmiðlana en um málið sjálft.

En hvað stendur þá eftir? Hvað má læra af þessari litlu uppákomu?

Í fyrsta lagi liggur ljóst fyrir að á milli Bandaríkjanna og Íran liggur gjá skilningsleysis sem erfitt er að brúa. Lee Bollinger er enginn öfgamaður samanborið við marga Bandaríkjamenn, og yfirlýsingar Mahmoud Ahmadinejad voru hjóm miðað við það sem hann hefur viðhaft við önnur tækifæri. Engu að síður fór boðskapur hvors þeirra að miklu leyti fram hjá hinum.

Í öðru lagi er augljóst að bæði valdhöfum og almenningi hættir til að ofmeta gríðarlega vissu sína um hvað er rétt og hvað er rangt í flóknum málum sem eins og þeim sem tekist var á um á þessum fundi. Flestir Bandaríkjamenn, Ísraelar, Íslendingar og Íranir telja að sú hlið sem þeir sjá á málinu – þaðan sem þeir standa – sé sú rétta.

Klukkutímalangur fyrirlestur gerir lítið til að auka gagnkvæman skilning manna á millum, sérstaklega þegar túlkanir á honum snúast um flest annað en fram kom á atburðinum sjálfum. Engu að síður er líklegt að hann hafi haft jákvæð áhrif haft á yfirsýn einhverra yfir málið, ef ekki önnur en að hvetja til frekari samskipta í framtíðinni.

Það er sem betur fer útlit fyrir að svo verði, því Lee Bollinger skoraði á forsetann að gefa nemendum og kennurum í Columbiaháskóla heimild til að halda fyrirlestra í írönskum háskólum um mál- og tjáningarfrelsi. Og það síðasta sem Mahmoud Ahmadinejad gerði áður en hann steig úr pontu var að taka þeirri áskorun og bauð hann slíka sendinefnd velkomna í hvern af þeim 400 háskólum sem starfræktir eru í Íran. Það er vonandi að af þeirri heimsókn verði sem fyrst, og að minna fari fyrir gífuryrðunum á þeim fyrirlestrum en á þeim sem fram fór í síðustu viku.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)