Sjötíu dagar í Háskólatorg

Húsnæðismál hafa löngum verið stórt vandamál í Háskóla Íslands. Skortur hefur verið á kennsluaðstöðu sem og góðri rannsóknaraðstöðu. Einnig hefur aðstöðu nemenda verið mjög ábótavant. Núna styttist hins vegar í að Háskólatorg líti dagsins ljós en því er ætlað að leysa að verulegu leyti húsnæðisvanda Háskólans.

Húsnæðismál hafa löngum verið stórt vandamál í Háskóla Íslands. Skortur hefur verið á kennsluaðstöðu sem og góðri rannsóknaraðstöðu. Einnig hefur aðstöðu nemenda verið mjög ábótavant. Núna styttist hins vegar í að Háskólatorg líti dagsins ljós en því er ætlað að leysa að verulegu leyti húsnæðisvanda Háskólans.

Háskólatorg eins og það er kallað í dag er samheiti yfir tvær byggingar sem nú rísa smátt og smátt á svæði Háskóla Íslands. Önnur byggingin, sem í daglegu tali er kölluð Háskólatorg 1, rís á lóðinni milli Aðalbyggingar og Íþróttahúss Háskólans. Hin byggingin, sem kölluð er Háskólatorg 2, rís á lóðinni milli Lögbergs, Nýja Garðs, Árnagarðs og Odda. Byggingarnar tvær munu svo tengjast þeim sem fyrir eru og verður innangengt á milli þeirra. Ætlunin er einnig að tengja Háskólatorg 1 við háskólasvæðið sem stendur vestan Suðurgötu með undirgöngum.

Byggingarnar tvær verða alls 8.500 fermetrar að stærð með tengibyggingum. Þetta er mikil og góð viðbót við þær byggingar sem fyrir eru, en áætlað er að Háskólatorg muni hýsa um 1.500 stúdenta, 300 starfsmenn og gesti á hverjum tíma. Þar munu vera fyrirlestrarsalir, kennslustofur og rannsóknarsalir sem allt verður búið nýjustu græjum. Einnig verða þar tölvuver og skrifstofur kennara.

Ánægjulegt er fyrir nemendur skólans að við hönnun Háskólatorgs hefur verið tekið mark á tillögum okkar stúdenta og í Háskólatorgi verður lesrými og vinnuaðstaða fyrir nemendur í grunn- og framhaldsnámi. Aðstaða nemenda hefur of lengi verið takmörkuð og því gleðiefni að loks fari að birta til í þeim málum. Það var því mikið fagnaðarefni þegar ákveðið var að bæta þriðju hæðinni ofan á Háskólatorg 2 og bæta þar með enn frekar lesaðstöðu nemenda.

Flestallri þjónustu Háskólans verður komið fyrir inn í Háskólatorgi en þar verða til dæmis Nemendaskrá Háskólans, Námsráðgjöf og Alþjóðaskrifstofa. Stúdentaráð og Félagsstofnun stúdenta fá líka rými undir sína starfsemi í Háskólatorgi og verður Bóksala stúdenta þar til húsa. Vonandi er að Stúdentaráð geti sinnt málefnum stúdenta með betri hætti en áður hefur verið gert þegar það flytur í nýtt húsnæði.

Nöfnin Háskólatorg 1 og 2 hafa þó einungis verið vinnuheiti á hinum nýju byggingum en undanfarið hefur staðið yfir samkeppni um heiti á hinum nýju byggingum. Hátt á annað þúsund tillögur bárust og verður niðurstaðan úr samkeppninni kynnt 9.október. Spennandi verður að sjá hvaða heiti byggingarnar nýju munu fá.

Háskólatorg mun bæta alla aðstöðu í Háskólanum til muna, bæði fyrir kennara og nemendur. Það er nauðsynlegt fyrir skóla sem ætlar sér í fremstu röð að aðstaða sé til fyrirmyndar. Þetta er því mikilvægt skref í rétta átt.

Háskólatorg verður vígt 1.desember næstkomandi og hlakkar undirrituð til að vera viðstödd þennan merka áfanga í sögu Háskóla Íslands.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.