Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu virðist ekki ætla að taka ástandið í miðbænum neinum vettlingatökum. Helgi eftir helgi eru þeir mættir í fjölmennum hópum í bæinn og sýna í verki að jafnvel smæstu afbrot, eins og að henda kókdós í götuna, verða ekki liðin. Í þessu felst fyrst og fremst ákveðin áherslubreyting á ímynd lögreglunnar. Hún hefur að sjálfsögðu staðið vaktina í miðbæ Reykjavíkur allar helgar undanfarin ár og áratugi til að kljást við gesti miðbæjarins en munurinn er sá að umfjöllun fjölmiðla er meiri og hinn nýi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Stefán Eiríksson, leggur greinilega mikið upp úr því að fólk finni að lögreglan taki þetta verkefni sitt alvarlega.
Þetta er jákvætt skref. Stór hluti af þeim vanda sem við er að etja í miðborginni um helgar, stafar af því hugarfari sem myndast hjá hluta þeirra gesta sem sækja skemmtistaði bæjarins. Með því að taka á þessum málum af festu og tryggja að fréttir berist af þeim aðgerðum lætur lögreglan finna fyrir sér. Það eitt að fólk geri sér grein fyrir hertum aðgerðum lögreglu og velti því fyrir sér áður en haldið er á vit ævintýranna í miðborginni er jákvætt og stór þáttur í þeirri hugarfarsbreytingu sem þarf að verða.
Aukinn sýnileiki lögreglunnar virðist strax vera farinn að skila árangri, ef marka má ummæli yfirmanna lögreglunnar í fjölmiðlum. Það er gott að heyra og þýðir að þær óraunsæu og stórtæku hugmyndir sem kynntar hafa verið um að flytja til skemmtistaði og staðsetja upp á nýtt í öðrum hverfum bæjarins með opinberu handafli, hljóta að fara aftur ofan í skúffu. Þær hugmyndir voru að vísu ansi skrautlegar og ekki úr vegi að rifja nokkrar þeirra upp hér.
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins fór þar jafnan fremstur í flokki. Í leiðara sínum þann 24. ágúst fjallaði blaðið t.d. um óöldina í miðborginni og er þar m.a. tekið undir þær hugmyndir að dreifa lokunartíma skemmtistaða á ákveðið tímabil yfir nóttina, t.d. frá klukkan eitt til fjögur. Það er dæmi um hugmynd sem hljómar vel en hefði trúlega frekar neikvæð áhrif en hitt. Gestir miðbæjarins eru einfaldlega ekki svo rökrænn og rólegur hópur að þeir færu bara heim ef skemmtistöðum lokar, heldur myndu þeir einfaldlega færa sig um set og fara á næsta stað, sem myndi aftur þýða að enn meira mannhaf á götum úti.
Enn hvað um það. Áhugaverðasti hluti leiðarans fólst ekki í að lýsa þessum hugmyndum, heldur náðu skrifin ákveðnu hámarki þegar dramatísk lýsing höfundar á hegðun og atferli eigenda skemmtistaða í miðbænum hófst. Þar segir:
„En það er jafnframt ljóst að til þess að hægt sé að framkvæma slíkar breytingar þarf að skilgreina starfsemi veitingastaða mun betur en nú er gert og setja stöðunum reglur um opnunartíma, hávaðamörk, og skyldur gagnvart umhverfi sínu, allt eftir því hvers eðlis þeir eru. Með strangari skilgreiningum gætu til að mynda veitingahúsaeigendur sem bjóða upp á lágværa kráarstemningu fyrir viðskiptavini sína framan af kvöldi, ekki breytt eðli starfsemi sinnar skömmu eftir miðnætti með því að starfrækja þá plötusnúða, hækka tónlistina og rýma fyrir dansi, líkt og nú tíðkast víða.“
Já, þeir eru alveg ótrúlega óprúttnir þessir lævísu skemmtistaðir sem breyta eðli sínu skömmu eftir miðnætti. Þeir eru þá búnir að lokka fólk til að koma og njóta lágværrar kráarstemningar fram eftir kvöldi þegar inn veður einhver óforskammaður plötusnúður, trúlega ekki áskrifandi að Morgunblaðinu, og fer að framleiða danshávaða langt yfir skilgreindum og opinberum hávaðamörkum. Sumir staðanna eru jafnvel svo bíræfnir að rýma til borð og stóla til þess eins að fólk geti farið að hrista á sér skankana.
Það sem Morgunblaðið og margir þeirra stórhuga stjórnmálamanna sem leita innblásturs í leiðaraskrifum blaðsins eiga erfitt með að viðurkenna er að ástandið í miðbænum er eins og það er þrátt fyrir reglurnar sem eru í gildi en ekki vegna þess að þær eru ekki strangari.
Himinhátt áfengisverð og opinber neyslustýring á því sviði hefur áhrif á drykkjumenninguna sem hefur myndast. Þau áhrif felast ekki í að fæla fólk frá því að drekka áfengi heldur viðheldur það þeirri hefð hjá ungu fólki að drekka fyrst í heimahúsum vegna þess að áfengi á skemmtistöðunum er svo dýrt. Þetta þýðir aftur að staðirnir eru hálftómir framan af og skemmtanalífið fer ekki af stað fyrr en eftir miðnætti.
Aukin samkeppni á leigubílamarkaði gæti þýtt að fleiri leigubílar væru í boði á nóttinni, eins og rakið var í pistli á þessu vefriti um daginn. Þetta myndi aftur þýða að bærinn tæmdist hraðar. Reykingarbann Alþingis á skemmtistöðum hefur fært ölvaða Íslendinga enn frekar út á göturnar nú í sumar. Svo mætti lengi telja dæmi um opinbera reglusetningu og inngrip sem er ætlað að leysa vandamál en skilar á endanum verri niðurstöðu en lagt var upp með. Þó það kunni að virðast óeðlilegt, þá felast lausnirnar ekki alltaf í því að móta umhverfið að duttlungum sínum. Stundum felast þær einmitt í því að slaka á klónni.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021