Er von að fæðast í Vesturbænum?

Hvort sem menn eru KR-ingar eða ekki og hvað sem hverjum finnst um ófarir liðsins það sem af er sumri er þó trúlega eitt sameiginlegt með íslenskum fótboltaáhugamönnum. Enginn átti von á því að KR-liðið með þann mannskap sem það hefur yfir að ráða, myndi koma jafnilla út í sumar og raunin hefur verið.

Gengi KR-liðsins í fótboltanum í sumar hefur í senn kætt og grætt fótboltaáhugamenn landsins. Hinir gallhörðu stuðningsmenn liðsins hafa eðlilega átt erfitt með að horfa upp á gengi sinna manna en á sama tíma er ekki óhugsandi að nokkuð hafi hlakkað í öðrum sparkspekingum yfir óförum KR-inganna. Eitt er þó sameiginlegt með íslenskum fótboltaáhugamönnum – það átti enginn von á því að KR-liðið með þann mannskap sem liðið hefur yfir að ráða, myndi koma jafnilla út í sumar og raunin hefur verið.

Í hópnum er að finna fjölmarga öfluga leikmenn, m.a. nokkurn hóp sem hefur leikið með íslenska landsliðinu og spilað í atvinnumennsku erlendis. Þá eru ungir og efnilegir leikmenn í bland. Það skortir því ekki upp á hópinn, að minnsta kosti ekki á pappírunum.

Þegar til stykkisins kemur hefur hins vegar vantað eitthvað í liðið. Ekki eitthvað stórt heldur er það frekar stórt eitthvað sem vantar. Ég eftirlæt mér fróðari mönnum um að ráða fram úr því hvort síðasta setning þessa pistils gangi upp.

En eflaust má fabúlera á ýmsa vegu um hvað nákvæmlega hefur vantað hjá KR í sumar. Sumir hafa talað um að skort hafi á leiðtoga inn á vellinum og óljóst af spili liðsins að dæma hver eigi að taka af skarið og vera sá sem skapi færin og liðið leiti til. Það kann að vera hluti af vandanum en ekki hefur heldur farið á milli mála hjá þeim sem fylgst hafa með liðinu í sumar að mikið hefur skort á áræðni og sjálfstraust leikmanna. Það er þungur baggi til að taka með inn á völlinn, ekki síst þegar gerðar eru miklar kröfur til liðsins.

Liðið er þó hægt og bítandi að vinna sig út úr þessum aðstæðum og vítahring. Með sigri á Víkingum í gær, þar sem fyrirliðinn Gunnlaugur Jónsson tryggði KR-ingum stigin þrjú, þokaðist liðið í fyrsta sinn af botni deildarinnar frá því í þriðju umferð og segja má að vonarneisti sé að fæðast í Vesturbænum um að KR haldi sér uppi og ef til vill eitthvað aðeins skárra en það. Þær breytingar sem gerðar verða á fyrirkomulagi deildarkeppninnar á næsta ári létta KR-ingum róðurinn þar sem einungis eitt lið fellur í ár. Það mætti ef til vill orða það þannig að vel viðri til fallbaráttu í ár.

Það er oft svo að þegar á móti blæs stíga óþekktari menn upp og sýna hvað í þeim býr. Það hefur verið raunin í sumar og sérstaklega hefur frammistaða Stefáns Loga Magnússonar, sem var varamarkvörður liðsins framan af sumri, vakið athygli. Frá því að honum var gefið tækifæri í byrjunarliðinu hafa KR-ingar fengið 9 af þeim 10 stigum sem liðið hefur fengið í sumar og það úr sex leikjum. Ennfremur hefur verið gaman að fylgjast með stuðningsmannakjarna KR-inga sem hafa sýnt og sannað að þeir standa með sínu liði og sínum mönnum í blíðu og stríðu, syngja stærstan hluta leikjanna og búa til stemningu á leikjunum sem sæmir stórveldi, jafnvel stórveldi í fallbaráttu.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.