Prófessor leiðréttur um málefni hafsins

Deilur um rétt til landgrunns Norðurpólsins fyrir utan 200 sjómílurnar hefur verið í kastljósi heimsfréttanna að undanförnu og hafa Rússar og Kanadamenn einkum verið áberandi í þeirri umræðu. Í kjölfarið hafa hinir og þessir velt því fyrir sér hvort Ísland geti gert tilkall til svæðisins. Svo er ekki.

Deilur um rétt til landgrunns Norðurpólsins fyrir utan 200 sjómílurnar hefur verið í kastljósi heimsfréttanna að undanförnu og hafa Rússar og Kanadamenn einkum verið áberandi í þeirri umræðu. Í kjölfarið hafa hinir og þessir velt því fyrir sér hvort Ísland geti gert tilkall til svæðisins. Svo er ekki.

Í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 síðastliðinn mánudag var rætt við Trausta Valsson prófessor í verkfræði um málefni Norðurpólsins þar sem kom fram m.a. að hann teldi sérstaklega mikilvægt að fylgja eftir af festu rétti Íslendinga við Jan Mayen. Það er mjög sérstök skoðun.

Þannig er málum hagað að 28. maí 1980 undirrituðu fulltrúar Íslands og Noregs samkomulag um fiskveiði- og landgrunnsmál og 22. október 1981 samkomulag um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen. Samkomulög þessi öðluðust gildi 2. júní 1982 eftir að hafa verið fulgilt nokkru áður af ríkjunum tveimur. Þann 11. nóvember 1997 var síðan samþykkt viðbótarbókun við samkomulögin sem öðlast gildi 27. maí ári síðar. Það er búið að leysa deilu Íslands og Noregs um Jan Mayen.

Staðan í dag er sú að mörk efnahagslögsögu og landgrunns Íslands og Jan Mayen eru skýrt afmörkuð. Til að forða misskilningi verður að taka fram að ríkin sömdu um að visst svæði landgrunnsins yrði sameiginlegt nýtingarsvæði auk þess sem samið var um fiskveiðiréttindi ríkjanna í lögsögu hvors annars sem og að sameiginleg fiskveiðinefnd yrði sett á laggirnar.

Í þættinum var einnig velt vöngum yfir því hvort Ísland ætti eitthvert tilkall til Norðurpólsins án þess að nokkuð haldbært svar fengist.

Svarið við spurningunni er reyndar tiltölulega einfalt: Nei.

Ástæðan er sú landgrunn (og reyndar efnahagslögsaga) Grænlands og Jan Mayen taka við af landgrunni (og efnahagslögsögu) Íslands í norðri og loka þannig á hafsvæði Íslands. Til að valda ekki misskilningi er átt við landgrunnið í lögfræðilegum skilningi.

Hægt væri að fjalla um fleiri atriði úr þættinum en hér verður staðar numið.