Hvað er til ráða?

Í þessum pistli endurvek ég gamla hugmynd sem fyrstu lausn við ástandi miðbæjarins um helgar.

Í byrjun vikunnar var skemmtanalíf miðbæjarins mikið í umræðunni eftir ummæli Stefáns Einarssonar lögreglustjóra sem kallaði eftir aðgerðum Reykjavíkurborgar við ástandinu þar. Í kjölfarið fékk Kastljósið til sín borgarfulltrúana Gísla Martein Baldursson og Svandísi Svavarsdóttur til að ræða aðkomu borgarinnar að þessu máli. Þau voru sammála um að þessi mál þyrfti að ræða og þar á meðal hvort lenging á opnunartíma skemmtistaða hefði í sjálfu sér verið góð hugmynd. Í stað þess að áður safnaðist fólk saman fyrir utan skemmtistaðina um þrjúleytið gerist það nú um sexleytið. Eins og fram kom í þættinum mætti segja að skemmtanahaldið væri farið að brjóta á frelsi þeirra sem vilja ganga um miðbæinn að morgni dags um helgar.

Eftir lokun skemmtistaða er markmið flestra næturlífsgesta að komast heim í háttinn en ekki að hafa skrílslæti á götum borgarinnar. Að koma sér heim úr miðbænum getur hins vegar verið þrautin þyngri á þessum tíma dags og oftar en ekki bíða tugir ef ekki hundruð ölvaðra manna í leigubílaröð langt fram á morgun sem kallar á ekkert nema vandræði.

Íslendingar eru aldrei eins duglegir að fara út að skemmta sér eins og á sumrin og státa sig jafnvel af því til að laða að ferðamenn. Á sama tíma eru hins vegar aldrei eins fáir leigubílar á götum borgarinnar. Leigubílstjórar kvarta yfir því að fá ekki menn í afleysingar og neyðast margir hverjir til að leggja bílunum á meðan þeir taka sér sumarfrí.

Hvernig komum við ölvuðum og þreyttum næturlífsgestum til heim til sín? Lausnin liggur beint við, endurvekjum næturstrætó og flytjum fólkið heim í hrönnum. Borgin hlýtur að sjá að sú endurvakning er góð sem fyrsta lausn á ástandi miðbæjarins. Gaman væri að með haustinu sæjust auglýsingar á borð við: “Ókeypis í strætó fyrir námsmenn og djammara” og ekki væri nú verra að fá rjúkandi heitt kaffi og blöðin á leiðinni heim í háttinn.

Latest posts by Hrefna Lind Ásgeirsdóttir (see all)

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir skrifar

Hrefna Lind hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.