Það er verið að fylgjast með þér

Flestir draga fyrir gluggana hjá sér til þess að njóta friðhelgi inni á heimili sínu. Kannski til þess að geta gengið um íbúðina á nærbuxunum einum fata eða til þess að geta skúrað í kafarabúning án þess að nágranninn sé að fylgjast hlæjandi með manni. Það er ónotaleg tilfinning sem grípur mann þegar einhver er að fylgjast með manni. Hvað ef þessi einhver er opinber aðili? Á manni þá að líða betur?

Flestir draga fyrir gluggana hjá sér til þess að njóta friðhelgi inni á heimili sínu. Kannski til þess að geta gengið um íbúðina á nærbuxunum einum fata eða til þess að geta skúrað í kafarabúning án þess að nágranninn sé að fylgjast hlæjandi með manni. Það er ónotaleg tilfinning sem grípur mann þegar einhver er að fylgjast með manni. Hvað ef þessi einhver er opinber aðili? Á manni þá
að líða betur?

Lítil umræða hefur farið fram á Íslandi um það hversu langt opinberrir aðilar eigi að ganga í því rjúfa friðhelgi einkalífsins. Sú umræða sem þó hefur verið í gangi er frekar einhliða og einkennist helst af því að lögreglan eða stjórnmálamenn koma fram og segja borgunum að þeir séu öruggari með auknu eftirliti. Þetta eftirlit sem um ræðir er hins vegar ekki allt til þess gert að tryggja öryggi borgaranna. Sumt af því sem viðgengst á Íslandi í dag er óásættanleg afskipti af hálfu opinberra aðila í einkalíf fólks.

Lögreglan á Íslandi tekur myndir inn í bíla þeirra ökumanna sem aka of hratt með í það minsta tvennum hætti, sérstökum myndavélabílum og hraðaeftirlitsmyndavélaum. Farþegi í bíl sem ekur of hratt, á Íslandi í dag, er myndaður og það er til mynd af honum í fórum lögreglunnar. Farþegi bílsins hefur ekki gert neitt rangt, hann hefur ekki brotið nein lög með því að sitja í bílnum, þó hann aki of hrattt. Engu að síður myndar lögreglan farþegann á sama hátt og hún myndar glæpamanninn.

Á göngu okkar um miðbæinn erum við öll undir vökulu auga eftirlitsmyndavéla hins opinbera sem fylgist með ferðum okkar. Skrár verða til þar sem hægt er að skoða hverjir voru á ferð um miðbæinn tiltekinn dag, hvenær, í hverju og með hverjum. Hugmyndir hafa komið upp hjá hinu opinbera að setja njósnakubb í bíla fólks til að hægt sé að fylgjast með ferðum þess og skrá niður hugsanleg brot á umferðarlögunum. Þannig mætti áfram telja.

Því miður virðist Ísland vera að flækjast í köngulógavef eftirlitsmyndavéla, hraðaeftirlitsmyndavéla og öruggismyndavéla sem fylgjast með borgurunum. Hið opinbera hefur ríka tilhneigingu til þess að útvíkka valdheimildir sínar, auka eftirlit með borgurunum og reyna að hafa vit fyrir þeim. Þetta er óásættanlegt og við þessari þróun verður að sporna áður en það verður um seinan. Hver vill búa í ríki sem opinberir aðilar fylgjast með hverju skrefi borgaranna?

Rök þeirra sem eru fylgjandi auknu eftirliti hins opinbera á borgurunum eru iðulega þau að í skjóli myrkursins þrífist spilling, glæpir og ólifnaður og það þurfi að koma í veg fyrir með því að
fylgjast með fólki svo hægt sé að refsa því. Með þessum rökum mætti halda því fram að með fullkomnu afnámi einkalífs myndu glæpir heyra sögunni til.

En hver vill lifa í samfélagi þar sem hann er sviptur frelsinu til einkalífs? Viljum við fórna friðhelgi einkalífsins og frelsinu fyrir öryggi fangans?

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)