Mín fagra Heimaey

Lífið er yndislegt í Íslenska sumrinu. Stöku stormsveipur stælir karlmannslund og ungu fólki er úthýst úr einstaka sveitarfélagi. Við látum það þó ekki á okkur fá heldur klæðum okkur í ullarbrókina og komum fagnandi á suðlægari slóðum.

Nú er verslunarmannahelgin að renna sitt skeið og uppgjör í fullum gangi um hvaða skipulagða hátíð sigraði ofbeldis- og fíkniefnakeppni fjölmiðlara. Keppnin verður líkast til ekki eins hörð nú og jafnan, því óvenjufáar stórar hátíðir voru haldnar í ár.

Akureyringar tóku auk þess upp á þeirri níbreytni að vísa fólki kringum tvítugt úr bænum svo ekki kæmi til slæmrar fjölmiðlaumfjöllunar og tjaldstæðið óhreinkaðist ekki. Ef einhverjum skyldi detta í hug að slasa sjálfan sig eða aðra ellegar drekka sig til ólífis, þá væri betra að það gerðist sem fjærst bænum. Það reynir því á það núna um helgina hvort allt slæmt sem gerist þar nyrðra sé utanbæjarmönnum að kenna, því enga slíka ku vera að finna þar.

Það er þó ekki um allt land sem ungu fólki er vísað á Guð og gaddinn. Líklega eru á fáum stöðum eins góð kennslustund í gestrisni og í Vestmannaeyjum einmitt um þessa helgi. Eyjamenn bjóða unga sem aldna velkomna að halda með þeim stærstu fjölskylduhátíð sem um getur í landinu. Þar syngja saman níræðir og nýburar, með gleði að markmiði og gildir þá einu um laglínu og tóntegund. Flestir ná markinu og skemmta sér konunglega.

Í öllum þessum fjölda er alltaf hætta á að óhöpp verði og þá er til taks björgunarlið, læknar og lögregla. Aðkomufólki í tjöldum var í upphafi hátíðarinnar í ár beint í íþróttahús bæjarins til að koma í veg fyrir að tjöld þeirra fykju og fjöldinn allur upplifir rómantík og reyktan lunda í hvítum tjöldum heimamanna. Eyjamenn setja öryggið á oddinn á meðan Akureyringar kjósa að skera hann af. Akureyringar ættu því að skella sér á þjóðhátíð að ári og læra af þeim sem best kunna að skemmta sér og öðrum. Um næstu helgi gætu þeir líka lært ýmislegt af frændum sínum Dalvíkingum sem opna hús sín fyrir gestum og bjóða í fiskisúpu. Mér er meira að segja kunnugt um að barnlausu fólki um tvítugt sé hleypt þar inn.

En þó Svarfaðardalur sé fegurstur dala fylgir Herjólfsdalur fast á eftir og óumdeilt að hvergi er jafngott að vera í góðu veðri og í Vestmannaeyjum. Slíkt er algengt þar um slóðir, enda grænkar grasið þar fyrr og dafnar æskan betur en á öðrum stöðum. En þar er þó ekki alltaf blíða og stormurinn jafnan sterkari en víðast hvar þegar hann lætur á sér kræla. Þar er regnið líka sætara og þokan þéttari en þekkist á byggðu bóli. Það er því ekki að undra að fólk kunni þar að gleðjast og syngja.

Það er ágætt að ljúka helginni á örlítilli upprifjun á eldri óðum Deiglunnar til Sælueyja í suðri:
Þetta eina sem útaf bar 21.07.02
Undurfagra ævintýr

Hún rís úr sumarsænum
Í silkimjúkum blænumMeð fjöll í feldi grænum

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)