Nýir hagsmunahópar í Vatnsmýrinni

Umræðan um veru flugvallarins í Vatnsmýrinni hefur dalað nokkuð á undanförnum misserum, enda ljóst að hann mun vera þar í nokkur ár í viðbót. Þegar sú deila stóð sem hæst voru það annars vegar hagsmunir landsbyggðarinnar og hins vegar hagsmunir Reykvíkinga (sem kusu flugvöllinn burt) sem vógust á. Á stuttum tíma hefur notkun vallarins hins vegar breyst þannig að það eru allt í einu ekki bara hagsmunir landsbyggðarinnar að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni sitji sem fastast.

Umræðan um veru flugvallarins í Vatnsmýrinni hefur dalað nokkuð á undanförnum misserum, enda ljóst að hann mun vera þar í nokkur ár í viðbót. Þegar sú deila stóð sem hæst voru það annars vegar hagsmunir landsbyggðarinnar og hins vegar hagsmunir Reykvíkinga (sem kusu flugvöllinn burt) sem vógust á.

Síðan kosningarnar um veru vallarins fóru fram hefur notkun hans hins vegar breyst töluvert. Umferð einkaþota og einkaflugvéla er nú orðin mun meiri og sífellt heyrast fréttir af fólki sem leggja ekki lengur leið sína um Keflavíkurflugvöll á leið til útlanda heldur um Reykjavíkurflugvöll.

Æ oftar heyrast lýsingar á því hversu mikil þægindi fylgja því að þurfa ekki að fara alla leið til Keflavíkur, vera mættur tveimur klukkustundum fyrir brottför og þurfa svo að fara í gegnum allt öryggis- og eftirlitskerfið sem þar er. Miklum mun þægilegra og fljótlegra er að rölta niður á Reykjavíkurflugvöll (ef þú býrð í 101), labba út í vél, leggja af stað og lenda nánast í miðborg London (séu menn á leið þangað). Flugferðin sjálf tekur kannski svipaðan eða aðeins lengri tíma en allt umstangið í kringum ferð um Keflavíkurflugvöll og svo Heathrow er miklu fljótlegra og minna.

Á stuttum tíma eru það allt í einu ekki bara hagsmunir landsbyggðarinnar að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni sitji sem fastast.

Þá hefur að undanförnu farið fram nokkur umræða um frekari umferð um flugvöllinn þar sem Iceland Express hefur sóst eftir aðstöðu undir flugstöð á Reykjavíkurflugvelli til að hefja þar innanlands- og millilandaflug. Aðstoðarmaður samgönguráðherra hefur í því sambandi lýst því yfir að hægt sé að koma Iceland Express að við völlinn annað hvort í nýrri samgöngumiðstöð eða á annan hátt. Hvort af almennu millilandaflugi verður um Reykjavíkurflugvöll er óvíst á þessari stundu en í það minnsta virðist raunverulegur áhugi fyrir hendi.

Þessi umræða og þær breytingar sem nú þegar hafa átt sér stað í notkun vallarins hnígur allt í þá átt að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Alltént er ljóst að lóðin á vogarskálar þeirra sem vilja flugvöllinn í Vatnsmýrinni hafa þyngst verulega síðan kosið var um legu flugvallarins fyrir nokkrum árum.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.