Hjálpin að ofan

Eins og í allri alþjóðlegri þjóðfélags- og byggðaþróun eru orsakir hnignandi byggðar á dreifbýlustu svæðum landsins margar og flóknar. Sú staðreynd, að fólk sækist frekar eftir búsetu á höfuðborgarsvæðinu heldur en í smáum sjávarbyggðum úti á landi, er ekki hægt að rekja til breytinga í umgjörð og starfsemi sjávarútvegsins einvörðungu. Orsakirnar eru fleiri og margþættari. Sjávarbyggðirnar geta þó margar hverjar risið upp á ný. En hvar eiga þær að leita sér hjálpar?

Það eru ekki ýkja mörg ár síðan að tekjuhæstu einstaklingana var að finna í smáum sjávarþorpum úti á landsbyggðinni. Þegar sjávarútvegur var verðmætasti atvinnuvegur landsins og megin tekjustofn þess. Þega finna mátti í hverri höfn fjölda skipa og smábáta sem unnu verðmæti úr auðlindinni sem í hafinu býr. Reykjavík var heldur aumleg (þó vaxandi) smáborg, haldið uppi af vaxandi opinberri stjórnsýslu og stækkandi þjónustugeira.

Í dag hefur þetta snúist á hvolf. Blómatími sjávarbyggðanna fór, mishratt þó, að dala upp úr miðri síðustu öld. Á sama tíma fór Reykjavík og höfuðborgarsvæðið að eflast mjög. Verslunar- og þjónustugeirinn jókst hröðum skrefum og nýir kjarnaatvinnuvegir urðu til þar. Nánast öll meiriháttar atvinnusköpun síðustu áratugina hefur verið á höfuðborgarsvæðinu á meðan aðrir landshlutar varla héldu sínum hluta.

Það er alveg ljóst að blómatími sjávarbyggðanna er liðinn undir lok. Það má jafnvel segja sem svo að hnignunin sé komin á það stig að varla séu forsendur fyrir áframhaldandi byggð í mörgum þeirra. Forsendur sem áður byggðu á mikilvægi nálægðar við fiskimið og vanþróaðra tækja til sjósóknar og fiskvinnslu. Þvert á móti eru ýmsir þættir tengdir fiskvinnslu nútímans sem vinna gegn mörgum sjávarbyggðum, svo sem aðgengi að vegakerfi landsins og nálægð við flugvelli. Öflugri fiskistofnar og meiri kvóti munu ekki breyta þeirri staðreynd.

Eins og í allri þjóðfélags- og byggðaþróun, sama hvar sem hana er að finna í heiminum, eru orsakir hnignunarinnar margar og flóknar. Sú staðreynd, að fólk sækist frekar eftir búsetu á höfuðborgarsvæðinu heldur en í smáum byggðum úti á landi, er ekki hægt að rekja til breytinga í sjávarútvegi einvörðungu. Orsakirnar eru fleiri og margþættari.

Einn veigamikill þáttur er menntunarstig þjóðarinnar. Sífellt betri menntun Íslendinga skaut rótum undir mikilvæga sérhæfingu vinnuaflsins á Íslandi. Og það þarf enginn að velkjast í vafa um það að það hefur verið eitt mesta heillaskref íslensku þjóðarinnar á síðustu öld, og telja má forsendu velferðarsamfélags nútímans og samkeppnishæfni gagnvart öðrum löndum.

Sérhæfing og menntun vinnuaflsins kallar á ( og grundvallar ) sérhæfðari atvinnusköpun. Og sérhæfðari atvinnustarfsemi þarf á sífellt meira baklandi að halda til að geta stundað sína starfsemi, auk náinnar samveru og samskipta við aðra sérhæfða atvinnustarfsemi auk þjónustustarfsemi sem getur þjónustað hana á fullnægjandi hátt. Þetta eru öflin á bak við hinn mikla uppgang Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins á síðustu áratugum. Reykjavík er í dag orðin það öflug, að hún gæti hugsanlega vel haldið velli sem sjálfstætt ríki án aðkomu landsbyggðarinnar. Hið sama er þó sennilega ekki hægt að segja um landsbyggðina.

Kvótakerfið hefur orðið skotspónn margra sem sárnar þessi þróun. Og meira að segja hefur tilvist þess alið af sér heilan stjórnmálaflokk sem berst fyrir afnámi þess. En vitanlega er kvótakerfinu ekki um að kenna hver þróunin hefur verið. Kvótakerfið hefur vissulega kallað á verulega hagræðingu í sjávarútvegi og fiskvinnslu sem breytti búsetuskilyrðum víða. Hagræðingu sem var atvinnugreininni nauðsynleg ef ekki átti að fara líkt og í mörgum nágrannalöndum okkar þar sem hún er klafi á þjóðabúinu og nýtur styrkja og niðurgreiðslna. Þvert á móti var kvótakerfið heillaskref. Og sennilega stærsta einstaka skref sem þjóðin hefur stigið í átt til sjálfbærrar þróunar. Það má vera að innleiðing þess hafi ekki gætt fyllstu sanngirni, en það er engin ástæða til að snúa til baka.

En sjávarbyggðir landsins geta (að minnsta kosti margar þeirra), sem og landsbyggðin öll, risið upp á ný. En það er alveg ljóst að hún getur aldrei keppti við höfuðborgarsvæðið með tilliti til flestra þeirra þátta sem í dag ráða búsetu fólksins í landinu, hvorki atvinnuöryggis, atvinnufjölbreytni, afþreyingar né annarra þeirra lífsgæða sem borgin hefur upp á að bjóða.

Og allra síst kemur raunveruleg og sjálfbær hjálp að ofan. Það er t.a.m. erfitt að sjá hvernig niðurgreidd og ósjálfbær háskólastarfsemi á landsbyggðinni eigi að gera hana álitlegri í augum heimamanna og hvað þá höfuðborgarbúa. Það eina sem hún gerir er að freista nýútskrifaðra námsmanna enn frekar til að bæta kjör sín með því að flytja suður. Flutningur opinberra starfa út á land er einnig verulega ósjálfbær aðgerð. Hvernig eiga – þess fyrir utan – illa launuð og óspennandi opinber störf að freista metnaðarfullrar æsku á landsbyggðinni?

Ákveðnar sjávarbyggðir Austurlands eru nú að uppskera erfiði mikillar hjálpar að ofan. En sú hjálp kom ekki til nema með verulegri bjögun þeirra markaðsafla sem telja má sjálfbæra og æskilega í nútímasamfélagi eins og það sem sæmir landi í fremstu röð, auk þess að sundra þjóðinni í tvær fylkingar og vinna veruleg umhverfisspjöll á áður óspilltri náttúru. Viljum við endurtaka þann leik aftur?

Eina raunverulega hjálp sjávarbyggðanna er að neðan. Með því að vinna úr eigin málum á eigin forsendum. Meta styrkleikana og tækifærin og greina veikleika og ógnir. Það má vera að utanaðkomandi aðilar séu nauðsynlegir og æskilegir til að ýta við og styðja við ákveðna þróun, en þeir eiga ekki að leiða hana.

Það má vera að í mörgum tilfellum séu aðstæðurnar einfaldlega of takmarkaðar til að hægt sé að bægja frá því að byggðir lognist út af. En við því á samfélagið að bregðast við með skynsömum aðgerðum, svo sem aðstoð við búsetuflutninga. Ekki demba úr ríkiskassanum í gagnslausar gagnaðgerðir sem verða aldrei til nokkurs. Því hvernig sem á það er litið kemur raunveruleg og skynsamleg hjálp einungis að neðan, þó svo öryggisnetið og hjálpardekkin geti e.t.v. komið að ofan.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.