9/11 2.0?

Í nýjustu mynd Bruce Willis er spilað með þá hugmynd að ósvífnir þrjótar kunni að nota tölvutækni til að valda usla og ringulreið í Bandaríkjunum. Dæmigerð Hollywood-della, eða tákn um nýja tíma? Tvö nýleg dæmi benda til þess að sitthvað sé til í hugmyndinni.

Í nýjustu mynd Bruce Willis er spilað með þá hugmynd að ósvífnir þrjótar kunni að nota tölvutækni til að valda usla og ringulreið á risavöxnum skala. Er þetta dæmigerð Hollywood-della, eða er þetta raunsönn lýsing á hryðjuverkum framtíðarinnar? Sennilega er þetta sitt lítið af hvoru.

Eins og áður hefur komið fram hér á Deiglunni þá kemur tölvutæknin ansi víða við sögu. Stærstu verslanakeðjur, heildsalar og framleiðendur treysta á tölvutæknina til að stýra fyrirtækjum sínum og framleiðslu. Raforkuframleiðsla okkar er algerlega háð tölvutækni, og eins og fram kemur á heimasíðu Kárahnjúkavirkjunar, verður virkjuninni alla jafna „fjarstýrt frá Reykjavík, eins og öðrum raforkumannvirkjum Landsvirkjunar.“

Þótt tölvur séu í víðtækri notkun þýðir það að sjálfsögðu ekki að hægt sé að brjótast inn í þær. Ef auðveldara er að sprengja vatnsaflsvirkjanir eða háspennumöstur en að brjótast inn í tölvukerfi Landsvirkjunar liggur beint við að sú aðferð yrði ofan á ef einhver vildi vinna skemmdarverk á orkuinnviðum Íslands. Af tveimur nýlegum dæmum má þó ráða að í síauknum mæli muni glæpa- og hryðjuverkamenn ráðast á tölvukerfi á skipulagðan máta.

Fyrra dæmið er keimlíkt því sem fjallað er um í Die Hard 4.0 — fyrir utan auðvitað sprengingarnar, gatslitna og grútskítuga stuttermabolinn, skrámaða upphandleggsvöðvana og hnyttnu tilsvörin. Þegar yfirvöld í Eistlandi ákváðu að flytja til stríðsminnisvarða tóku Rússar því óstinnt upp og upphófst víðfeðm og skipuleg árás á innviði upplýsingatæknikerfis Eistlands. Heimasíður yfirvalda, banka og annarra fyrirtækja voru gerð óstarfhæf í marga daga, svo erfitt var að ná sambandi við yfirvöld eða sinna viðskiptum á netinu. Reyndar voru símar og faxtæki að mestu enn virk, svo ekki var um algert sambandsleysi að ræða, og ekki var ráðist að raforkuframleiðslu. Engu að síður olli þetta miklu raski í Eistlandi, og nokkrum ugg meðal Eista og annarra smáþjóða í svipaðri stöðu.

Síðara dæmið var ekki jafnfyrirferðarmikið, en ekki síður alvarlegt. Þar var um að ræða innbrot í símkerfi Vodafone í Grikklandi, nánar tiltekið í AXE leiðagreini frá Ericsson sem stýrði símtölum úr GSM netinu og í aðra hluta símkerfisins. En í stað þess að nota hinn illa fengna kerfisaðgang til að stöðva símkerfið var aðgangurinn notaður til að hlera GSM síma yfir 100 hátt settra ráðamanna, meðal annars forsætisráðherra Grikklands, annarra ráðherra, og æðstu yfirmanna varnamálaráðuneytisins.

Þessar símhleranir stóðu yfir í meira en eitt ár, og fóru þannig fram að þegar hringt var í eða úr einhverjum af hleruðu símunum hafði leiðagreinirinn samband við tiltekin símanúmer og sendi samtalið í þau um leið og þau áttu sér stað. Símanúmerin sem notuð voru við hlerunina voru venjuleg frelsisnúmer, og enn í dag er ekkert vitað um hverjir stóðu að baki þessu innbroti eða af hverju. Þó er ljóst að umtalsverð vinna fór í þetta innbrot, því mikið var lagt upp úr því að hylja slóð brotamannanna, nokkuð sem þarfnast umtalsverðar sérfræðiþekkingar á símtækjabúnaði. Hugsanlegt er að einhverjir starfsmenn Vodafone hafi verið viðriðnir málið, þótt það sé ekki ljóst. En því miður er útlit fyrir að þetta mál hafi kostað að minnsta kosti eitt mannslíf, því Kostas Tsalikidis, kerfisstjóri hjá Vodafone í Grikklandi, fannst látinn daginn eftir að upp komst um hleranirnar. Dánarúrskurðurinn var sjálfsmorð, þótt ýmsir telji að um morð hafi verið að ræða, til að koma í veg fyrir að upp um glæpamennina kæmist.

Þessi dæmi eru afmörkuð, en sennilega fyrirboði um það sem koma skal. Árásin á Eistland var hrein internetárás, en líklega eru aðferðir á borð við þær sem beitt var í Grikklandi hættulegri til lengri tíma. Þar hefur tölvuglæpum að öllum líkindum verið beitt í tengslum við umfangsmeiri njósnaaðgerð. Sökudólgarnir eru hugsanlega venjulegir glæpamenn, en þó var aðgerðin það vel skipulögð að ýmsir hafa leitt líkum að því að erlend stjórnvöld hafi átt hlut að máli, og hafa tyrknesk og bandarísk stjórnvöld verið nefnd í því samhengi.

Þótt við munum varla sjá dramatík í líkingu við þá sem er daglegt brauð lögreglumannsins John McLane, er ljóst að ásýnd tölvuglæpa mun smátt og smátt breytast, eftir því sem umfang tölvutækninnar eykst, og vonandi að laganna vörðum takist að halda í við glæpamenn og annan óþjóðalýð.


Sjá nánari umfjöllun á neðangreindum síðum:

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)