Gengisbundin lán verða æ óhagstæðari

Bandaríkjadalur er nú kominn niður fyrir 60 kr og gengisvísitalan er kominn niður að 110. Raungengi krónunnar hefur að sama skapi hækkað hratt. Raungengið mun ekki hækka að eilífu. Til skemmri tíma er væntur hagnaður af því að skulda í erlendri mynt orðinn mjög lítill vegna hás gengis krónunnar og áhættan talsvert mikil.

Á undanförnum mánuðum hefur gengið krónunnar skyrkst verulega. Bandaríkjadalur er nú kominn niður fyrir 60 kr og gengisvísitalan er kominn niður að 110. Raungengi krónunnar hefur að sama skapi hækkað hratt. Raungengið er nú komið langt yfir sögulegt meðaltal og fer að nálgast toppinn sem það náði síðla árs 2005.

Þessi mikla hækkun á gengi krónunnar undanfarna mánuði hefur gert það að verkum að mjög hagstætt hefur verið að skulda í erlendri mynt. Þeir sem hafa skuldað í erlendri mynt síðustu 12 mánuði hafa líklega hagnast um svo sem 20% í formi lægri vaxtakostnaðar annars vegar og gengishagnaðar hins vegar.

En raungengi krónunnar hækkar ekki að eilífu. Ef litið er á hegðun raungengis krónunnar á síðustu áratugum hefur það haft sterka tilhneigingu til þess að lækka þegar það hefur náð þeim hæðum sem það hefur nú náð. Þetta gerir það að verkum að væntur hagnaður af því að skulda í erlendri mynt er talsvert lægri í dag en hann var fyrir 12 mánuðum.

Til lengri tíma mun vaxtamunurinn líklega vega upp gengislækkun krónunnar og gott betur. Til lengri tíma (meira en þriggja ára) er því enn líklega hagstæðara að skulda í erlendri mynt. En til skemmri tíma er væntur hagnaður af því að skulda í erlendri mynt orðinn mjög lítill vegna hás gengis krónunnar og áhættan talsvert mikil.

Mín ráðlegging er því sú að þeir sem eru að hugleiða að taka lán til skamms tíma geri það í íslenskum krónum. Fyrir þá sem eru að hugleiða að taka lán til lengri tíma eru gengisbundin lán enn vænlegur kostur. En þeir sem ákveða að taka gengisbundin lán þurfa að vera undir það búnir að þeir geta tapað talsverðu til skemmri tíma ef krónan veikist. Einungis þeir sem hafa kjark og fjárhagslegt bolmagn til þess að sigla í gegnum slíka öldudali eiga að ráðast í lántökur í erlendri mynt.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.