Einkavæðing Íslandspósts tímabær

Það er á valdi alþingismanna að afnema einkaréttinn á póstdreifingu sem festur er í lög um póstþjónustu nr. 19/2002. Það liggur fyrir að einkarétturinn verði afnuminn, það er bara spurning um hversu hratt það gerist. Íslandspósti virðist ekkert að vanbúnaði og því liggur ákvörðunin hjá Alþingi.

Nýverið var haft eftir forstjóra Íslandspósts, Ingimundi Sigurpálssyni, að hann teldi heppilegt að afnema einkarétt á póstdreifingu sem allra fyrst. Forveri hans í starfi, Einar Þorsteinsson var á sama máli fyrir þremur árum og sagði hann eignarhald ríkisins jafnframt heftandi þar sem það kæmi veg fyrir þróun á sviði póstþjónustu. Þegar gengið var á nýskipaðan samgönguráðherra, Kristján Möller, treysti hann sér ekki til þess að taka afstöðu í málinu fyrr en eftir fund samgönguráðherra Norðurlandanna í haust.

Undanfarið hefur Íslandspóstur verið að útvíkka starfsemi sína og fjarlægst upphaflegt hlutverk sitt sem er samkvæmt opinberri skilgreiningu að veita almenna og sérhæfða bréfa- pakka- og sendingaþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Fyrr á þessu ári keypti fyrirtækið prentþjónustuna Samskipti og hlut í vefmælingarfyrirtækinu Modernus, en þessi tvö fyrirtæki eru í alls óskyldum rekstri sem ekki fellur undir eiginlegt hlutverk fyrirtækisins. Íslandspóstur er hlutafélag sem enn er að fullu í eigu ríkisins og nýtur sérréttinda og hefur einkarétt á póstdreifingu innanlands samkvæmt lögum.

Kaup hlutafélagsins á einkafyrirtækjum og ríkisvæðing þeirra er með öllu óásættanleg og til þess fallin að raska eðlilegri samkeppni. Mikilvægt er að stjórnvöld beiti sér fyrir því að draga ríkið út úr allri beinni atvinnustarfsemi og haldi áfram að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja. Það er dagljóst að engin þörf er á ríkisprentsmiðju eða innkomu ríkisins á prentmarkaðinn þar sem samkeppni einkaaðila blómstrar.

Það er á valdi alþingismanna að afnema einkaréttinn á póstdreifingu sem festur er í lög um póstþjónustu nr. 19/2002. Það liggur fyrir að einkarétturinn verði afnuminn, það er bara spurning um hversu hratt það gerist. Íslandspósti virðist ekkert að vanbúnaði og því liggur ákvörðunin hjá Alþingi. Samgöngunefnd Evrópusambandsins skýrði nýlega frá því að lönd sambandsins hefðu frest til 2011 til þess að afnema einkaréttinn, en það er engin ástæða til þess að bíða með afnám hans á Íslandi þegar ljóst er að Íslandspóstur er tilbúinn til þess að mæta samkeppni á markaði um póstþjónustu.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.