Afburða frumburðir

Frumburðir eru með umtalsvert hærri greindarvísitölu en yngri systkini þeirra. Getur þessi fullyrðing staðist?

Frumburðir eru með umtalsvert hærri greindarvísitölu en yngri systkini þeirra.

Getur þessi fullyrðing staðist?
Svo er víst, ef marka má niðurstöður norskrar rannsóknar. Rannsóknin byggði á niðurstöðum greindarvísitöluprófa 250 þúsund norskra karlmanna á aldrinum 18 til 19 ára, en prófið var hluti af herskylduferlinu þar í landi. Upplýsingar um eldri og/eða yngri systkini voru síðan tvinnaðar við niðurstöðurnar, sem og ef að systkini hafði fallið frá.

Samkvæmt niðurstöðunum voru frumburðirnir að meðaltali með greindarvísitölu 2.3 stigum hærri en þeir sem voru númer tvö í systkinaröð. Þá mátti greina sömu hneigingu milli greindarvísitalna númer tvö og þrjú. Þannig fer hún lækkandi eftir systkinafjölda.

Til að setja 2.3 stig á greindarvísitöluprófi í samhengi, hefur verið sýnt fram á að í bandarísku SAT prófunum, þar sem að heildarstigafjöldi er 1600 stig, jafngilda þessi 2.3 stig 30 stigum á prófinu. Þessi stig geta síðan auðveldlega skilið á milli inngöngu í bestu háskólana og í þá næstbestu.

Önnur rannsókn (bandarísk) á um 600 fjölskyldum sem voru a.m.k. fjögurra barna, leiddi í ljós að frumburðurinn var yfirleitt með greindarvísitölu sem var 2.9 stigum hærri en fjórða systkinið.

Það sem norska rannsóknin afsannaði hinsvegar, var að hækkuð greindarvísitala frumburðar væri eitthvert líffræðilegt fyrirbæri. Börn sem voru númer tvö í röðinni þar sem eldra systkini hafði fallið frá sýndu alveg sömu yfirburði og þeir frumburðir sem komust til manns. Þannig er ljóst að fyrirbærið er af félagslegum toga.

Margar ástæður kunna að vera fyrir þessu. Oft þurfa eldri systkini að vera staðgenglar foreldra sinna þegar þeir gæta systkina sinna og þurfa að leiðbeina þeim og kenna. Eldri systkini fá mögulega meira af tíma og óskiptri athygli foreldra sinna, og upplifa þar af leiðandi meira af hugarheimi og orðaforða þeirra. Þannig gætu foreldrar sjálfsagt séð við þessum mun með því að eyða meiri tíma með hverju barni einu og sér.

Eðlilega falla þessar niðurstöður í misjafnan jarðveg innan systkinahóps, og hefur pistlahöfundur sem er þriðja barn og yngst til að mynda ákveðið að viðra efni pistilsins ekki við bræður sína.

Heimildir:
New Scientist

Latest posts by Ásdís Rósa Þórðardóttir (see all)

Ásdís Rósa Þórðardóttir skrifar

Ásdís Rósa hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2003.