Þegar ég á æskuárum ungur var

Þegar ráðamenn stuðluðu loksins að langþráðri opnun Þjóðarbókhlöðunnar í árslok 1994, rúmum tuttugu árum eftir að Alþingi hafði ákveðið að skenkja þjóðinni bókhlöðu í tilefni ellefuhundrað ára afmæli Íslandsbyggðar

Þegar ráðamenn stuðluðu loksins að langþráðri opnun Þjóðarbókhlöðunnar í árslok 1994, rúmum tuttugu árum eftir að Alþingi hafði ákveðið að skenkja þjóðinni bókhlöðu í tilefni ellefuhundrað ára afmæli Íslandsbyggðar, var ljóst að aðsókn eftir lesborðum væri meiri heldur en framboð. Brá stjórn safnsins þá á það ráð að meina grunnskólanemum og nemendum á yngri árum í framhaldskólum að nýta sér lesaðstöðu sem á safninu var.

Skipti hér engu máli að þrátt fyrir að í 6. gr. laga um safnið sagði að það væri þjóðarbókasafn, og að ekki væri til staðar í lögum eða reglugerð safnsins heimild til þess að mismuna borgurum um þjónustu og aðstöðu safnsins á grundvelli aldurs. Taka verður reyndar fram að hin almenna jafnræðisregla stjórnarskrár var ekki lögfest fyrr en tæpu ári síðar, svo forráðamönnum safnsins var því einhver vorkunn að vera ekki jafn vel verseraðir í jafnræði, eins og gerðist með síðari kynslóðir.

Reyndar er túlkun jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar vandasamara verkefni, heldur en flestir gera sér grein fyrir og getur verið snúið á stundum, þar sem ekki mismunun þarf ekki brjóta í bága við regluna sjálfa. Sérstaklega getur þetta reynst vandasamt þegar kemur að því hvort mismunun sé heimil á grundvelli aldurs, þegar augljósum tilfellum svo sem þegar um börn er að ræða sleppir.

Hefur þetta vandamál kristallast í sumar í vandræðum staðarhaldara og landvarða á tjaldsvæðum með skemmtanaglaða næturgesti. Hafa sum tjaldsvæði sett aldurstakmörk og hafa vísað ungum tjaldgestum frá, með þeim rökum að um fjölskyldustaði sér að ræða. Hefur þetta verið gert til þess að koma í veg fyrir drykkjuskap með tilheyrandi drykkjulátum og þeirri röskun og truflun sem drukkin ungmenni valda fjölskyldufólki og öðrum næturgestum tjaldsvæðanna sem hafa ekki svall og sukk á dagskránni.

Hefur þó þeim sem uppfylla ekki aldurstakmörk verið heimilað að koma í fylgd með foreldrum sínum, þótt forræði foreldranna yfir viðkomandi sé lokið.

Ástæður þær sem gefnar hafa verið upp fyrir aldurstakmarki eru þær að um fjölskyldustað sé að ræða, að lagt hafi verið í fjárfestingar til þess að trekkja að fjölskyldufólk og að fjölskyldufólk og sauðdrukkið fólk eigi afar illa saman, einkum vegna þess hve hinir síðarnefndu eru gjarnir á að raska svefnró þeirra fyrrnefndu.

Það er reyndar álitamál hvort forráðamönnum tjaldsvæða sé heimilt að mismuna viðskiptavinum sínum eftir aldri, starfræki þeir tjaldsvæði fyrir almenning, á þeim grundvelli að yngri gestir séu líklegri til þess að standa fyrir hópdrykkju og óspektum en eldra fólk.

Lagalega niðurstaðan hér felst í því hvort slík mismunun sé málefnaleg þ.e. að hún byggist á almennum og hlutlægum sjónarmiðum sem lögð eru til grundvallar henni. Er lesendum hins vegar látið eftir að greina hvort aldurstakmark sem sett er til þess að koma í veg fyrir drykkjulæti og hópamyndun ungmenna á tjaldsvæðum. Jafnframt verður að taka tillit til þess að eigandi tjaldsvæðis hefur stjórnarskrárvarinn rétt til þess að fara með og ákveða nýtingu eignar sinnar.

Það fennir fljótt í sporin og eldri kynslóðir virðast gleyma því fljótt hvernig var að vera ungur, eða spyrða ungmenni nútímans við þau ungmenni sem héldu á Saltvík eða Hreðavatn-Húnaver eða Atlavík þegar pabbi og mamma eða afi og amma voru ung. Það er því almennur consensus í samfélaginu að meina megi ungu fólki, sem er sjálfs síns ráðandi að gera hitt og þetta, án þess að slík mismunun eigi sér endilega stað á grundvelli málefnalegra sjónarmiða sem byggjast á almennum og hlutlægum grunni

Við beitingu jafnræðisreglunnar verður að gæta sín vel á að ákvörðun um að mismunun eigi sér stað gerist ekki á grundvelli ósambærilegra tilfella.

Það má þó velta fyrir sér hvort sami consensus sé til staðar í samfélaginu um að mismunun ætti sér stað á grundvelli kynferðis, kynhneigðar eða litaháttar, við mat á því hvort heimilt sé að mismuna á grundvelli aldurs!

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.