Ekkert að þakka?

Á kvennadaginn var kynnt rannsókn sem sýndi að konur jafnt sem karlar telja að ásættanleg laun kvenna séu lægri en ásættanleg laun karla. Mismunandi mat fólks á greiðvikni karla og kvenna kann að vera ein af ástæðunum fyrir þeirri skoðun.

Samkvæmt nýjustu mælingum er óútskýrður launamunur karla og kvenna 15%. Það er, þegar tekið hefur verið tillit til allra þátta sem hægt er að útskýra eru konur með 85% af launum karla í sambærilegum störfum. Orðið „óútskýrður“ þýðir í þessu samhengi nákvæmlega það sem orðabókin segir til um: Við vitum ekki af hverju hann stafar. Orsakirnar gætu annað hvort legið í því að atvinnuveitendur mismuni körlum og konum, eða af því að störf karla og kvenna séu ólík í atriðum sem atvinnuveitendur sjá en fræðimennirnir ekki.

Í nýlegri rannsókn Þorláks Karlssonar og Margrétar Jónsdóttur, sem kynnt var í Háskólanum í Reykjavík á kvennadaginn, komu í ljós sterkar vísbendingar um að hluta launamunarins (í það minnsta) megi rekja til þess að atvinnuveitendur telji konur ekki þurfa að fá jafnhá laun. En atvinnuveitendur eru síður en svo einir um þá skoðun, því könnunin sýndi að karlar jafnt sem konur myndu ráðleggja kvenkyns ættingjum sínum að semja um lægri laun en karlkyns ættingjum sínum. Mismunurinn á þessum ráðleggingum er glettilega nálægt þeim óútskýrða launamun sem mælist á hinum raunverulega vinnumarkaði.

Það er því mikið til í því sem segir í fréttatilkynningu HR um rannsóknina að launamunur kynjanna sé að stórum hluta „innbyggður í hugarfar okkar og væntingar“. En eru þessar mismunandi væntingar byggðar á raunverulegum mismun á því hvernig karlar og konur vinna störf sín eða eru þær byggðar á ranghugmyndum? Rannsókn Francis Flynn, sem gerð var við Columbia háskóla, rennir stoðum undir það síðarnefnda.

Í þeirri rannsókn var borið saman hversu mikils fólk metur greiða karlkyns og kvenkyns samstarfsmanna sinna. Niðurstaðan var sú að fólk tekur minna eftir greiðvikni kvenkyns samstarfsmanna og er ólíklegra til að endurgjalda greiða kvenna. Orsökin virðist að hluta til liggja í þeirri kynímynd sem fólk hefur af konum – að þær séu hjálplegar og góðar. Greiðar kvenna eru því flokkaðir sem almenn hjálpsemi sem ekki þarf að endurgjalda. Það er svipað uppi á teningnum í þessari rannsókn og þeirri íslensku að orsökin liggur ekki í samsæri karlmanna: Konur vanmeta greiðvikni annarra kvenna, ekki síður en karlarnir.

En það er ekki nóg með það að greiðar kvenna almennt séu vanmetnir. Ef konur eru indælar og viðkunnalegar eru greiðar þeirra metnir enn minna – því þær falla enn betur inn í kynímynd hjálplegu og góðu konunnar. Þetta er auðvitað mikil synd fyrir indælar og viðkunnalegar konur, og einnig fyrir samstarfsmenn þeirra indælu og viðkunnalegu kvenna sem ákveða að gribba sig aðeins upp eftir að hafa lesið þennan pistil.

En er svarið að rífa upp rauðu sokkana og brenna brjóstahöldin? Francis Flynn bendir í viðtali á að það sé óréttmætt og varhugavert að fórnarlömb slíks vanmats séu gerð ábyrg fyrir því að leysa úr vandanum. Engu að síður er hægt að auka líkurnar á því að greiðvikni séu metin að verðleikum með því að benda á að „þú myndir gera það sama fyrir mig“.

Það er mjög vafasamt að halda því fram að sá 15% launamunur sem er óútskýrður sé einnig óútskýranlegur, og giska einfaldlega á að hann hljóti að stafa af óréttmætum fordómum gagnvart konum. Engu að síður er ýmislegt sem bendir til þess að fordómar séu enn til staðar, og því þarf að breyta. Kvennadagurinn er einn þáttur í þeirri breytingu, og rétt að lesendur – karlkyns og kvenkyns – velti því fyrir sér í tilefni hans, hvort það geti verið að einhver eigi inni hjá þeim greiða.


Viðtalið við Francis Flynn um greiðvikni karla og kvenna er aðgengilegt á netinu.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)