Listin að daðra

Um daginn varð ég hálfþrítug. Ég fékk létt “panik” kast og sá sjálfa mig, eina og yfirgefna, að prjóna bleikan ullarsamfesting á púðluhundinn minn. Ég tók því málin í mínar hendur og rauk út í bókabúð og festi kaup á bókinni Súperflört-dúndurdaður eftir frægu daðurdrottninguna Tracey Cox. Ég settist niður og las bókina spjaldanna á milli og saug í mig allan þann fróðleik sem bókin bauð upp á. Mig langar að deila með ykkur helstu gullpunktum bókarinnar.


Um daginn varð ég hálfþrítug. Ég fékk létt “panik” kast og sá sjálfa mig, eina og yfirgefna, að prjóna bleikan ullarsamfesting á púðluhundinn minn. Ég tók því málin í mínar hendur og rauk út í bókabúð og festi kaup á bókinni Súperflört-dúndurdaður eftir frægu daðurdrottninguna Tracey Cox. Ég settist niður og las bókina spjaldanna á milli og saug í mig allan þann fróðleik sem bókin bauð upp á. Mig langar að deila með ykkur helstu gullpunktum bókarinnar.

Göngulagið
Í fyrsta kaflanum lýsir Tracey því hvernig má tæla fólk með göngulaginu einu saman. Göngulagið gefur til kynna persónuleika okkar og skap. Lykillinn að því að gefa réttu skilaboðin er að passa að setja engan líkamshluta á undan öðrum þegar gengið er. Ef axlir koma fyrstar er eins og þú sért í vörn og óttaslegin. Ef hnéin koma fyrst er eins og þú sért að fara eitthvert sem þú villt ekki fara og ef brjóstin koma fyrst lítur út fyrir að þú sért ýtin. Lykillinn að fallegu daðurslegu göngulagi er því ganga beinn þar sem enginn líkamshluti er fremstur, vagga mjöðmunum fram og aftur, brosa og hafa höfuð hnarreist. Þessa punkta hafði ég í huga er ég gekk hnarreist á fund í morgun. Það endaði ekki betur en svo að ég datt kylliflöt á miðri glerbrú, gangandi vegfarendum Hafnarstrætis til mikillar skemmtunar. Það var ekki alveg eins svalt og daðurslegt eins og Tracey hafði lýst því og vara ég fólk því við að fara ekki of geyst í “hnarreisuna”.

Augnsamband
Tracy talar um að augun séu mikilvægustu daðurtól líkamans. Draga á athyglina að augunum með því benda lúmskt á þau t.d. með því ýta hárinu frá þeim. Klassískt daður er að horfa í augun á þeim sem þér líst vel á, líta niður og svo aftur upp í nokkrar sekúndur. Ef viðkomandi lítur undan er augljóst að hann hefur engan áhuga. Hún talar einnig um að þegar fólk hefur kynferðislegan áhuga hvert að öðru fara augun í þríhyrning eftir líkamanum. Það byrjar á augunum og færir sig niður að munni. Eftir því sem áhuginn er meiri, stækkar þríhyrningurinn að brjóstum og jafnvel enn neðar. Hvað sem Tracey segir veit ég um fáar stelpur sem finnst til þess koma að láta glápa á brjóstin á sér. Við vinkonurnar höfum oft velt því fyrir okkur hvað karlmenn séu að hugsa þegar þeir eru í þeirri leiðslu. Er þetta forvitni um stærð brjóstanna, löngun til að snerta þau eða eru þeir bara þyrstir? Ein vinkona mín leysir þetta á einfaldan hátt. Á meðan hún er að tala við þá kemur hún brjóstahaldarastærðinni inn í miðja setningu. “Hvernig var það, 36C , útskrifaðist þú ekki úr verkfræði?” og ýtir hökunni á þeim upp um leið og hún segir töluna.

Síðasta augnadaður trikkið er að depla augunum til að sína áhuga. Samkvæmt Tracey er ljóst að sá sem deplar augunum mikið í samræðum er mjög áhugasamur um viðkomandi. Ég var spurð um daginn hvort ég notaði linsur því ég deplaði augunum svo mikið. Það mætti halda að ég hafi verið að taka Tracey á orðinu og verið að tæla einhvern í þessum samræðum. Þetta var hinsvegar eldri frænka mín sem spurði mig að þessu og ég vona af öllu hjarta að hún hafi ekki tekið þessu sem daðri þótt ég hafi verið þurr í augunum þennan dag.

Hvernig má sjá hvort hann hafi áhuga?
Besta setning bókarinnar er eftirfarandi lýsing á því hvernig karlmaður sem hefur mikinn áhuga á þér hagar sér. ”Lyftar augabrúnir, opnar varir, þandar nasir og galopin augu ljá andlitinu vingjarnlegan svip”. Ekki myndi ég vilja mæta þessum manni í dimmu húsasundi. Önnur merki þess að karlmaður sé áhugasamur eru ef hann snurfusar sig í návist þinni s.s. sléttir úr skyrtukraganum, strýkur yfir bindið og tínir af sér kusk. En 100% öruggt merki um áhuga frá karlmanni, segir Tracy, sé að ef karlmaður hysjar upp um sig sokkana á meðan þú ert viðstödd. Þá ertu sko komin í höfn.

Súperflört-dúndurdaður er skemmtilegur lestur þrátt fyrir að ég hafi fengið lítinn árangur fyrir stífar æfingar úr henni. Bókin hefur vakið mikla lukku sem upplestrarbók þegar við vinkonurnar komum saman og mæli ég með henni sem slíkri.

Latest posts by Hrefna Lind Ásgeirsdóttir (see all)

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir skrifar

Hrefna Lind hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.