Til hamingju sjómenn

Pistill dagsins er skrifaður til heiðurs sjómönnum, í tilefni af sjómannadeginum sem er einmitt í dag.

Pistill dagsins er skrifaður til heiðurs sjómönnum, í tilefni af sjómannadeginum sem er einmitt í dag.

Fyrst var haldið upp á sjómannadaginn þann 6. júní 1938 og voru það sjómenn í Reykjavík og á Ísafirði sem blésu til hátíðahalda til þess að kynna starf sjómanna og efla samhug þeirra en einnig til þess að minnast drukknaðra sjómanna. Talið er að um tvöþúsund sjómenn hafi tekið þátt í skrúðgöngu sem haldin var á fyrsta sjómannadeginum í Reykjavík árið 1938. Hátíðahöldin heppnuðust vel og á aðeins fáum árum breiddist siðurinn út um allt land.

Sjómannadagurinn er venjulega haldinn fyrsta sunnudag í júní og eina undantekningin á því er þegar hvítasunna ber upp á þann dag. Í hugum sjómanna og í mörgum sjávarplássum er sjómannadagurinn mesti hátíðisdagur ársins, að jólunum undanskildum en það eru samtök sjómanna sem sjá um hátíðarhöldin á hverjum stað. Daginn fyrir sjómannadag er yfirleitt mikil dagskrá þar sem sjómenn og aðrir keppa í koddaslag og allskonar kappleikjum og svo skemmta sér allir saman um kvöldið. Á sjómannadeginum er svo yfirleitt messa, sjómannadagskaffi og hátíðleg stemming.

Árið 1987 voru sett sérstök lög um sjómannadaginn þar sem tímasetning hans var lögfest og settar voru reglur til að tryggja sem flestum sjómönnum frí á sjómannadaginn. Það hefur einnig verið sett í kjarasamninga sjómanna að sumstaðar er fyrsti maí færður til, eða réttara sagt er fyrsta maí fríið fært til, svo að sjómenn fái lengra frí yfir þessa helgi og geti fagnað deginum í landi. Sjómannadagurinn er einnig almennur fánadagur og einn af ellefu opinberum fánadögum.

Það að útgerðirnar á Akureyri og samtök sjómanna hafi ekki getað komið sér saman um það hver ætti að borga brúsann á þessum hátíðisdegi, eins og gerðist núna í ár, finnst mér skammarlegt og ég vona að sagan endurtaki sig ekki að ári þarna fyrir norðan.

Sjávarútvegurinn hefur haldið lífinu í okkur Íslendingum frá því að land byggðist og í mínum augum eru sjómenn hetjur sem mér þykir sjálfsagt að heiðra í það minnsta einu sinni á ári. Sjómannadagurinn er því hefð sem mér finnst mikilvægt að við höldum í, sjómenn eiga þennan heiður skilið.

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)