Aðför að tjáningafrelsinu

Það verður ekki annað sagt en að Hugo Chaves forseta Venesúela gangi mjög vel að verða einvaldur í ríki sínu. Á undanförnum árum hefur hann lagt hverja grein ríkisvaldsins á fætur annarri undir sig; hæstiréttur er nánast alfarið skipaður stuðningsmönnum hans og á þinginu sitja engir stjórnarandstæðingar. Sömuleiðis hefur Chaves smátt og smátt lagt undir sig olíuiðnaðinn í landinu og hótað að ríkisvæða síma- og rafmangsfyrirtæki, bankana og fleira.

Það verður ekki annað sagt en að Hugo Chaves forseta Venesúela gangi mjög vel að verða einvaldur í ríki sínu. Á undanförnum árum hefur hann lagt hverja grein ríkisvaldsins á fætur annarri undir sig; hæstiréttur er nánast alfarið skipaður stuðningsmönnum hans og á þinginu sitja engir stjórnarandstæðingar. Sömuleiðis hefur Chaves smátt og smátt lagt undir sig olíuiðnaðinn í landinu og hótað að ríkisvæða síma- og rafmangsfyrirtæki, bankana og fleira.

Nýjasta aðför Chaves að lýðræðinu var að loka elstu og vinsælustu sjónvarpsstöð landsins RCTV (Radio Caracas Television Venezuela) eða réttara sagt að neita að endurnýja útstendingarleyfi stöðvarinnar enda stöðin mjög lituð af málstað stjórnarandstöðunnar. Á sama tíma hefur Chaves notað tækifærið til að hóta einu sjónvarpsstöðinni í Venesúlea sem eftir er, sem ekki styður opinberlega forsetann, Globovisión sem er að mestu send út um kapal, auk þess að hóta öðrum einkareknum fjölmiðlum. Önnur einkarekin sjónvarpsstöð hafði áður látið undan þrýstingi forsetans og hætt að senda út gagnrýnið efni.

Það var rétt fyrir miðnætti á laugardag fyrir viku síðan sem síðasta útsending stöðvarinnar fór í loftið og stuttu eftir miðnætti fór í loftið á einni rás RCTV ein af ríkisreknu stöðvunum. Hörð mótmæli brutust út í Caracas á sunnudaginn, leidd af stúdendum og stóðu í nokkra daga. Chaves hvatti þá stuðningsmenn sína til að flykkjast út á göturnar til að fagna lokuninni sem þeir og gerðu. Mótmælin voru friðsöm í fyrstu en enduðu svo með átökum milli lögreglu og mótmælenda, þar sem lögreglan beitti táragasi, vatnsþrýstibyssum og skotið var upp í loftið.

Chaves hefur nú gengið skrefi lengra en að hóta að ganga að eignarrétti manna og hefur hafið harkalega aðför að tjáningafrelsinu. Fjölmiðlum sem gagnrýna forsetann mun ekki verða vært í landinu. Mannréttindasamtök og Bandaríkin hafa gagnrýnt forsetann en furðulítið virðist þó hafa verið fjallað um þessa nýjustu einræðistilburði forsetans í suðri. Evrópusambandið var mjög varfærið í gagnrýni sinni og sömuleiðis hafa önnur lönd S-Ameríku varla þorað að tjá sig.

Meðan olíupeningurinn streymir inn í landið tekst forsetanum að halda almenningi ánægðum. En hvað gerist þegar búið verður að rústa atvinnuvegum landsins, reka menntastéttina úr landi, ríkisvæða öll fyrirtæki og hefta opinbera umræðu? Horfurnar eru alltént nokkuð slæmar.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.