Upp, upp mín borg

Hallgrímskirkja hefur í mörg ár verið háhýsið í Reykjavík, gnæft upp úr lágreistri borgarbyggðinni sem kennileitið eina í borginni við sundin til minningar um Hallgrím Pétursson. Á þessu er nú að verða mikil breyting þar sem háhýsi skjóta víða upp kollinum í borginni. Þetta er jákvæð þróun og til marks um þann uppgang og stórhug sem einkennir tíðarandann en það er þó ekki sama hvar slíkum byggingum er komið fyrir.

Hallgrímskirkja hefur í mörg ár verið háhýsið í Reykjavík, gnæft upp úr lágreistri borgarbyggðinni sem kennileitið eina í borginni við sundin til minningar um Hallgrím Pétursson. Á þessu er nú að verða mikil breyting þar sem byggingarverktakar virðast ekki lengur vera menn með mönnum
nema þeir byggi hátt og upp á margar hæðir. Þannig er t.d. 65 metra nýbygging við Grand Hótel að verða tilbúin, tveir turnar verða byggðir við Höfðatorg upp á 70 metra og við Smáralindina stendur til að reisa hæsta hús landsins, Smáratorg, sem verður 78 metrar, þremur og hálfum
metra hærri en Hallgrímskirkja. Þetta er jákvæð þróun og til marks um þann uppgang og stórhug sem einkennir tíðarandann. Það er þó ekki sama hvar háhýsin rísa enda hafa þau mikil áhrif á umhverfi sitt.

Að vísu teldust byggingar sem þessar ekki mjög háar annars staðar. Í Dubai er núna verið að reisa hæstu byggingu heims, sem verður um 800 metrar og nefnist Burj Dubai. Framkvæmdir standa einnig yfir við Freedom Tower í New York en hann verður tæplega 600 metrar. Taipei 101 í Taiwan er um 550 metrar og er hæsta bygging heims í dag. Í Evrópu virðist meiri hógværð vera ríkjandi í byggingarlistinni. Triumph-Palace í Moskvu telst vera hæsta bygging í Evrópu en hún er „aðeins“ 264 metrar og Commerzbank Tower í Frankfurt er næsthæst eða 259 metrar. Hæsta byggingin á Norðurlöndunum er Turning Torso í Malmö sem er 190 metrar.

Menn virðast því verða örlítið lágstemmdari í turnagerðinni eftir því sem norðar dregur og við Íslendingar erum langt frá því að byggja jafnhátt og víða annars staðar. Með tilkomu þeirra turna sem nú eru á teikniborðinu í Reykjavík, mun borgarmyndin eðlilega taka nokkrum breytingum. Það er
tímabær og þörf andlitslyfting enda engin sérstök nauðsyn að heilt höfuðborgarsvæði samanstandi nær eingöngu af ein- og tvílyftum húsum. Háhýsin munu gefa borginni meiri stórborgarbrag og færa hana nær nútímanum í ásýnd.

Spurning er því miklu frekar hvar, en ekki hvort, háhýsin eigi að rísa. Svona byggingar eru engin smásmíði og hafa áhrif á útsýni í nærliggjandi götum og eiga þar af leiðandi misvel við. Skuggahverfið er dæmi um háhýsi sem eyðileggja útsýni og skyggja á húsin í kring. Engu að síður hljóta að vera takmörk fyrir því hve langt er hægt að teygja sig til að koma til móts við slík sjónarmið. Háar byggingar taka óhjákvæmilega pláss og hafa áhrif á heildarmyndina. Það er hins vegar hægt að takmarka þau áhrif, háhýsi eiga t.d. ekki alltaf vel við í grónum hverfum en kunna hins vegar að njóta sín betur á svæðum þar sem uppbyggingin er skemmra á veg komin.

Háhýsastefna Reykjavíkur, sem er núna í mótun í borgarkerfinu, hlýtur að miðast við að koma til móts við þessi sjónarmið og freista þess að finna jafnvægi þarna á milli. Ef vel tekst til verður þar til leiðarvísir um hvaða svæði séu heppilegust fyrir háhýsi, en þess verður að gæta að festa slíkar framkvæmdir ekki um of í fjötra.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.