Sáttastjórn í myndun

Allt útlit er fyrir að ný ríkisstjórn líti dagsins ljós á næstu dögum. Ljóst er að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar markar sátt – og er um leið sú stjórn sem þjóðin hefur óskað sér og kallað eftir í skoðanakönnunum og kosningunum sjálfum.

Allt útlit er fyrir að ný ríkisstjórn líti dagsins ljós á næstu dögum. Ljóst er að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar markar sátt – og er um leið sú stjórn sem þjóðin hefur óskað sér og kallað eftir í skoðanakönnunum og kosningunum sjálfum.

Eðlilegt er binda töluverðar vonir við tilvonandi ríkisstjórn. Með svo sterkan meirihluta er unnt að ráðast í vandasöm mál – jafnvel óvinsæl. Að sama skapi er ástæða til varkárni því þessi stóri meirihluti ber einnig með sér ýmsar hættur, sem gætu reynst ríkisstjórninni skæðar – einkum þegar líður á kjörtímabilið.

Í stjórnarsamstarfi þar sem meirihluti er mjög naumur verður dýrt fyrir þingmann að svíkja lit í tilteknum málum, enda þurfa foringjarnir að sýna öðrum í þingflokkinum að ekkert sé að hafa upp úr slíkri hegðun nema tímabundna athygli. Í rúmum meirihluta verður hins vegar dýrt að refsa þingmönnum fyrir einstaka upphlaup. Hættan er því sú að stjórnarsamstarf tveggja stórra flokka þreytist fljótt ef þess er ekki kyrfilega gætt að þingmenn átti sig á þeirri sameiginlegu ábyrgð sem þeir bera.

Það er því mikilvægt að traustið sem allt bendir til þess að sé að verða milli Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur kvíslist niður í raðir þingmanna og flokksmanna. Í farsælu samstarfi er nefnilega mikilvægt að leyst sér úr ágreiningsefnum í bróðerni, sé þess nokkur kostur.

Það munu vitaskuld koma upp mál í ríkisstjórnarsamstarfi þar sem ekki ríkir algjör einhugur innan flokkana – eða milli þeirra. Í slíkum málum reynir á raunverulegan samstarfsvilja og hvort langtímahagsmunir þjóðarinnar fái að ganga framar skammtímahagsmunum flokkana eða einstakra þingmanna.

Samkvæmt lögum eru þingmenn bundnir af eigin samvisku og engu öðru. Það er þó ekki þar með sagt að þeim sé óheimilt að gera málamiðlanir, enda kæmu þeir ella litlu til leiðar. Vonandi eru þeir þó ekki margir þingmennirnir sem eru tilbúnir að kyngja hverju sem er. Allir þurfa að hafa siðferðismörk sem þeir fara ekki yfir og grundvallarskoðanir sem þeir fara ekki gegn.

Stofnanir flokkana munu þurfa að samþykkja að starfa samkvæmt stjórnarsáttmála og þingmenn að gera upp við sig hvort þeir styðji ríkisstjórnina. Ef þeir gera það hafa þeir um leið skuldbundið sig til þess að gera nauðsynlega málafmiðlanir svo samstarfið beri árangur. Hvernig túlkun þingmanna á stjórnarsáttmálanum verður þegar líður á kjörtímabilið segir nokkuð til um heilindi þeirra gagnvart samastarfsflokki sínum og kjósendum.

Stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur burði til þess að verða farsælt og heilladrjúgt fyrir þjóðina. Frjálslyndi og skynsemi eru meginstef í báðum þessum flokkum – og almenn virðing fyrir einstaklingnum. Á grunni þess sem flokkarnir eiga sameiginlegt ætti að reynast mögulegt að ná miklum árangri.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.