Í ómannúðlegri andstöðu við stríð

Höfundur spyr sig: Er virðing einstaklings fyrir velferð/lífi annars einstaklings eðlislæg og/eða skilyrðislaus, eða er sú virðing háð ýmsu?

Samanber inngang, þá ýtir höfundur úr vör með því að breyta hinni óljósu spurningu í fullyrðingu: Virðing einstaklings fyrir velferð/lífi annars einstaklings getur ekki verið skilyrðislaus en að ýmsu uppfylltu má kalla hana svo sjálfsagða að jaðrar við eðlislægni.

Kalt? Vissulega.

En það að fullorðnast er að kólna, fjarlægjast veruleikann – öðlast yfirsýn á kostnað getunnar til ástríðufullrar nálgunar á lífið. Hver man ekki bernskuna, þegar ómöguleikinn þekktist ekki og deyjandi fluga gat laðað fram í okkur hjúkrunarfræðing og skríðandi ánamaðkur kvalara. Og hver pakkaði ekki inn í álpappír matarafgöngum fyrir mömmu að senda hungruðum börnum úti í heimi daginn eftir; og kannski kannast einhver við vonbrigðin yfir að verða ekki fyrir vonbrigðum mörgum árum síðar þegar móðir viðurkennir, hikandi, fyrir hálfstálpuðum einstaklingi að matarsendingarnar hefðu allar endað í ruslinu í vinnunni; ótemjuvæntingar æskunnar voru orðnar þægar.

Áfram í þessu kalda ljósi: Lengi átti ég erfitt með mig varðandi stríðið í Írak. Ég var alveg örugglega aldrei hlynntur því en heldur aldrei á móti af nokkurri sannfæringu.

Kalt? Vissulega.

En mér finnst samúð með fórnarlömbum misþyrminga og dauðans, og syrgjandi eftirlifendum, í fjarlægum veruleika þar sem flest er framandi varla vera samúð; kannski frekar skopstæling á samúðartilfinningunni, sem ruglar fólk í rýminu og fær það til að efast um siðferðisþrek sitt, eða í besta falli vorkunn. Ég finn ég vorkenni af fullum þunga en það er eins og samúðin geri meiri kröfur. Hún hremmir mann og færir í spor þess sem upplifir, eins og fyrir yfirnáttúrulegt inngrip, á meðan vorkunn vekur til umhugsunar, samúðarfullrar umhugsunar um óréttlæti – og eigin blessun.

Og áfram, þar eð ég tel aldrei of seint að smíða sér sannfæringu um stríð.

Um daginn rofaði þó til í óvissunni og ég varð allheitur andstæðingur Íraksstríðsins. Ég heyrði pilt og stúlku tala saman. Hann segir: „Ef þú ert á móti stríðinu þá hefðirðu verið á móti Frelsisstríðinu í Ameríku á sínum tíma – og þú sérð stöðuna í dag, ha?!“ Ég sá á svip hennar að ég þurfti að snúa orðunum á haus.

Takk og einmitt!

Að fá tækifæri til að sameinast gegn kúgara sínum er, fyrir sundraða þjóð, að fá tækifæri til að sameinast til framtíðar; hið Vígfúsa Bandalag neitaði írösku þjóðinni um það tækifæri. Bandalagið greip inn í þroskaferli þjóðar og fyrir vikið mun hún aldrei ganga heil/sameinuð til skógar – aldrei; og geri ég þá ráð fyrir að Vígfúsa Bandalagið muni ekki taka að sér hlutverk kúgarans fyrrnefnda í framtíðinni.

Þess vegna er ég á móti Íraksstríðinu. Kalt? Vissulega.

Latest posts by Guðmundur Jóhann Óskarsson (see all)