Stóriðjustefna nýrrar ríkisstjórnar

Nú er meint “stóriðjustjórn” Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks farin frá og allt útlit fyrir að við taki stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Afstaða flokkanna til stóriðju var nokkuð mismunandi í kosningabaráttunni, Samfylkingin virtist styðja það að hægt yrði á framkvæmdum á meðan Sjálfstæðisflokkurinn var hlynntur því að leyfa þessari þróun að halda áfram. Því verður áhugavert að sjá hver “stóriðjustefna” nýju væntanlegu ríkisstjórnarinnar verður.

Mjög skiptar skoðanir eru um hvert hlutverk ríkisstjórnarinnar í uppbyggingu stóriðju á að vera. Sumum finnst að ríkið eigi að stýra þeirri þróun, annaðhvort áfram eða til stöðvunar, en öðrum finnst að það sé ekki ríkisins að stýra uppbyggingu í þessum iðnaði frekar en öðrum. Þó er ljóst að í nokkrum atriðum er hið opinbera óhjákvæmilega þátttakandi og nauðsynlegt er fyrir stjórnvöld að taka afstöðu til þeirra. Eitt þessara atriða er aðkoma opinberra aðila að orkusölu til stóriðju.

Eins og staðan er í dag eru allir stærri orkuframleiðendur landsins að öllu eða langstærstu leyti í opinberri eigu. Stærst þeirra er að sjálfsögðu Landsvirkjun sem er öll í eigu ríkisins. Á meðan þetta er staðan er ljóst að orkusala er mál hins opinbera og á ábyrgð stjórnmálamanna að hámarka hagnað fyrirtækisins. Þetta verður að sjálfsögðu aðeins gert með því að selja orkuna eins dýru verði og mögulegt er. Miðað við núverandi eftirspurn álframleiðenda eftir því að kaupa raforku hérlendis er erfitt að sjá annað en að rými sé til að hækka verðið frá því sem hingað til hefur verið. Höfundur hefur hins vegar engar tölulegar staðreyndir um verðið til að byggja á enda eru þær ekki gefnar upp opinberlega.

Annað atriði sem huga verður að varðandi orkusöluna er sú staðreynd að eigendur margra orkufyrirtækja landsins bera ábyrgð (að einhverju eða öllu leyti) á skuldum þeirra. Þegar sveitarfélög eða ríki ábyrgjast lán orkufyrirtækjanna þýðir það að þeir geta fengið lán á hagstæðari kjörum þar sem eigendurnir (ríkið/sveitarfélög) hafa lofað að borga lánið ef fyrirtækið getur það ekki sjálft. Það eru augljós verðmæti í þessu fyrir orkufyrirtækin þar sem þau spara sér vaxtakostnað. Hins vegar taka eigendurnir áhættu á sig þar sem þeir gætu þurft að borga lánið eða hluta þess. Með þessu myndast aukinn hagnaður fyrirtækisins sem skilar sér aftur til eigendanna. Hinn möguleikinn er að orkuverðið sé selt ódýrara en ella og þar með er í raun verið að niðurgreiða það til kaupendanna. Þetta er ekki óeðlilegt ef orkufyrirtækin eru í raun bara stofnanir sem ganga út á að veita raunverulegum eigendum sínum, borgurunum, orku.

Það er hins vegar orðið annað mál þegar verið er að selja öðrum en eigendunum orkuna. Dæmi um þetta er þegar ríkið ábyrgist lán til Landsvirkjunar til að fjármagna byggingu virkjunar sem á að veita álframleiðslu orku. Þá verður að taka tillit til þess í verðlagningu á rafmagnsverðinu, annars er einfaldlega verið að niðurgreiða verðið til álframleiðendanna og það er óásættanlegt að ríkið taki á sig áhættu til þess.

Hreinlegast væri að ríki og sveitarfélög ábyrgðust ekki lán til orkufyrirtækjanna. Hins vegar má eflaust finna einhver rök fyrir því að það þjóni heildinni að lánin fái ábyrgð. Þá er fyllilega eðlilegt að orkufyrirtækin greiði einfaldlega ríkinu og sveitarfélögum fyrir þessa ábyrgð. Með því þyrftu orkufyrirtækin að reikna með hinum rétta kostnaði í arðsemisútreikningum sínum og þá yrði orkuverðið frá þeim að endurspegla það.

Á meðan orkufyrirtækin eru í opinberri eigu og njóta ábyrgðar opinberra aðila er aðkoma stjórnvalda því klárlega til staðar í stóriðjuframkvæmdum og stefna nýrrar ríkisstjórnar verður því mikilvæg í þróun stóriðju á Íslandi.