Þegar kosningabaráttan snýst um frábæra stöðu

Það hafa margir tekið undir þær bollaleggingar stjórnmálaskýrenda að undanförnu að kosningabaráttan í ár hafi verið daufleg og snúist um fátt. Baráttan hefði eflaust verið skemmtilegri ef hér væri hart deilt um hvernig ætti að rífa hagkerfið í gang eða vinna bug á atvinnuleysinu. Slík barátta snerist hins vegar ekki um ástand sem við vildum búa við.

Það hafa margir tekið undir þær bollaleggingar stjórnmálaskýrenda að undanförnu að kosningabaráttan í ár hafi verið daufleg og snúist um fátt. Þetta er þó ákveðið öfugmæli, því kosningabaráttur eru í sjálfu sér aldrei dauflegar, enda er þar tekist á um stöðu þjóðfélagsins, framtíð þess og stefnu. Útlistanir stjórnmálaskýrendanna endurspegla hins vegar betur hvernig stóryrði ýmissa stjórnmálamanna hafa fuðrað upp í vindinn og þar af leiðandi ekki náð því að verða grundvöllur mikilla pólitískra átaka.

Innihaldslitlar kosningabombur
Umræðan um að taka upp evruna, matvælaverð, aukinn ójöfnuð og meintar skattahækkanir, hafa koðnað niður. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að ekki reyndist innistæða fyrir málflutningi þeirra sem hæst töluðu. Umhverfismálin voru afar áberandi framanaf, svo áberandi að stofnaður var sérstakur flokkur um þau. Sá flokkur fór að vísu fljótlega að bæta við ýmsum öðrum málefnum, eins og til að mynda aðild að Evrópusambandinu sem hefur eflaust komið nokkru hiki á hugsanlega kjósendur.

Umhverfis- og innflytjendamál
En það fór hins vegar mun minna fyrir umhverfismálunum á lokaspretti kosningabaráttunnar en margir héldu. Þetta er ekki síst vegna þess að ákveðin samstaða hefur myndast um að hægja á í uppbyggingu virkjana og stóriðju, án þess þó að setja hér allt á ís eða stopp um ótiltekinn tíma. Slíkar æfingar myndu enda kæfa útrás íslenskra orkufyrirtækja í fæðingu, sem væri ekki bara missir fyrir íslenskt hagkerfi heldur fyrir heiminn allan þar sem reynsla okkar og þekking af vinnslu grænnar orku er einstök.

Að sama skapi hefur umræða um innflytjendamál ekki farið jafnhátt og spáð var, enda eru íslenskir stjórnmálamenn með örfáum undantekningum víðsýnni en svo að taka upp sjónarmið einangrunarhyggju og fordóma.

Gamlir slagarar dregnir fram
Flestöll málin sem talið var að yrðu stóru kosningamálin, hafa þannig smám saman runnið út í sandinn. Ýmist hefur ekki verið grundvöllur fyrir þeim fullyrðingum sem settar voru fram eða þá að ekki reyndist áhugi á að fara út í frekari umræðu um þau. Það hefur því verið rætt um eitt og annað í staðinn og gamalkunnugir frasar fengið endurnýjun lífdaga. Vinstri grænir lögðu t.d. upp með það hófsama raunsæisloforð að ætla sér að útrýma fátækt og Samfylkingin bætti í sarpinn þegar flokkurinn stakk upp á því að afnema alla biðlista. Tannvernd barna hefur komist næst því að geta talist afmarkað mál sem fékk umfjöllun og athygli í kosningabaráttunni.

Endurspeglar góða stöðu
Staðreyndin er auðvitað sú að þessi kosningabarátta endurspeglar þá geysilega jákvæðu stöðu sem Ísland býr við um þessar mundir. Ímyndum okkur aðeins hvernig baráttan hefði þróast ef við glímdum við hátt atvinnuleysi eða neikvæðan hagvöxt. Ætli hún hefði verið jafndauf? Hvað ef tekjur fólks hefðu brunnið upp í verðbólgu undanfarin ár? Það er augljóst að ef staða efnahagsmála á Íslandi hefði verið eitthvað annað en frábær, er næsta öruggt að kosningabaráttan hefði snúist um atvinnu, kaupmátt og hagvöxt – hugtökin sem eru farin að hljóma þreytulega í eyrum margra vegna þess að við þurfum ekki að hafa af þeim áhyggjur.

Þessi sterka staða byggir þó ekki á tilviljunum og kemur ekki af sjálfu sér. Við erum í þeirri einstöku stöðu að stjórnmálamenn tala fyrst og fremst um framtíðina og hvernig þeir vilji sjá samfélagið þróast. Þeir þurfa ekki að glíma við efnahagsvandamál á borð við atvinnuleysi og stöðnun, heldur er staðan þvert á móti svo góð að fá dæmi eru um annað eins. Hér er ríkissjóður sem heita má skuldlaus, lífeyrissjóðakerfi sem er eitt það best stæða í heiminum og velferðarkerfi þar sem framlög til heilbrigðis- og menntamála eru með þeim hæstu innan OECD.

Kvartanir stjórnmálaspekinga og kaffihúsamanna um að baráttan í ár sé ekki nægilega skemmtileg verða að skoðast í þessu ljósi. Það eru ákaflega eðlilegar skýringar á þessari pólitísku deyfð – nefnilega þær að hér séu hlutirnir í býsna góðu lagi. Kosningabaráttan væri eflaust skemmtilegri ef hér væri hart deilt um hvernig ætti að rífa hagkerfið í gang eða vinna bug á atvinnuleysinu. Slík barátta snerist hins vegar ekki um ástand sem við vildum búa við.

Kosið um traust
Í dag er kosið um þessa framtíð og hverjum sé best treystandi til þess að leiða þjóðina næstu árin. Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur reynt þjóðinni vel og það er mikilvægt að við höldum áfram á sömu braut.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.