Kona, karl, kona og karl eða karl, karl, kona og kona

Sú lenska hefur sprottið upp nýlega að telja hversu margar konur eru í sjónvarpinu og hversu margir karlar. Þetta er gert til þess að reyna að finna út hversu gott hlutfall kynjanna er. Það slæma við þetta er að það gleymist yfirleitt hjá þeim sem eru að telja kynin, hvert umræðuefnið er og hver niðurstaðan í umræðunni verður.

Sú lenska hefur sprottið upp nýlega að telja hversu margar konur eru í sjónvarpinu og hversu margir karlar. Þetta er gert til þess að reyna að finna út hversu gott hlutfall kynjanna er. Það slæma við þetta er að það gleymist yfirleitt hjá þeim sem eru að telja kynin, hvert umræðuefnið er og hver niðurstaðan í umræðunni verður.

Sumir öfgakenndir femínistar búa við þann misskilning að halda að með því að hafa jafnmargar konur og karla á sama stað hafi hinu fullkomna jafnrétti verið náð. Mín hugmynd um „fullkomið“ jafnrétti er jöfn tækifæri fyrir alla óháð þjóðerni, uppruna, kyni, kynhneigð, trúarbrögðum, fötlun, litarhætti eða skoðunum. Þetta virðist oft gleymast hjá hinum öfgakennda femínista.

Ef málið væri svo einfalt að með því að hafa t.d. jöfn hlutföll kynjanna á þingi væri jafnrétti komið á, þá hefði það gerst fyrir löngu. Staðreyndin er hins vegar sú að það þarf ekki boð og bönn til þess að jafnrétti náist, það er til staðar í lögum að ekki skuli mismuna fólki eftir kyni og þannig er jafn réttur kynjanna tryggður.

Það sem þarf er hugarfarsbreyting.

En hvernig þarf hugarfarsbreytingin að vera? Eigum við að þurfa að telja karla og konur allstaðar? Hugsanlega væri hægt að bæta því við hlutverk jafnréttisstofu. Henni væri þá skylt að telja hlutföll kynjanna í öllum helstu spjallþáttum sem eiga sér stað um pólitík, ærið verkefnið það svona rétt fyrir kosningar.
Ekkert tillit þyrfti að taka til þess hvert umræðuefnið væri hverju sinni, það eina sem skipti máli væri þá að Egill Helgason og fleiri þáttastjórnendur hefðu nákvæmlega jafnmarga karla og konur í settinu.

En hvað færði það okkur konum?

Fólk er valið í sjónvarpsþætti vegna þess að það hefur eitthvað til að málanna að leggja. Manneskjan hefur þá líklega skrifað um málið eða komið skoðun sinni á framfæri. Þannig kemst manneskja í sjónvarp því þáttastjórnandinn hefur komist að því að skoðun hennar er eitthvað sem fólk myndi hafa áhuga á að heyra. Hvers vegna haldið þið að Jón Baldvin sé alltaf í sjónvarpinu, þrátt fyrir að vera hættur í pólitík? Því þegar hann kemur í sjónvarpið vekur það eftirtekt, hann setur eitthvað fram sem vekur áhorf. Það er það eina sem sjónvarpstöðvar eru að sækjast eftir.
Hér er ég ekki að segja að karlar hafi meira að færa fram en konur, alls ekki. Ég er einfaldlega að benda á að auðvitað á ekki að velja fólk á grundvelli kyns til þátttöku í spjallþáttum.

Ég er heldur alls ekki að gefa í skyn að konur séu eitthvað óæðra kyn en karlar, alls ekki! Ég vil bara ekki horfa á þetta konur eru svona og karlar eru svona. Konur eru að sækjast eftir sömu menntun og karlar, konur eru fleiri að mennta sig en karlar. Ættum við þá kannski að breyta því? Jöfn hlutföll kynjanna í háskólum landsins? Nei auðvitað ekki, það er okkar val hvort við menntum okkur eða ekki, við ráðum þessu sjálf.

Við ráðum því sjálf hvort raddir okkar heyrast með því t.d. að skrifa pistla, skrifa blogg, setja grein í Moggann eða bara að hringja inn í útvarpið. Þannig er þinni skoðun komið á framfæri. Ef þú ert á höttunum eftir sjónvarpsviðtali eru því mun meiri líkur á því að komast í viðtal ef þú hefur sett skoðun þína fram með einhverjum hætti. Jafnframt er staðan sú að með því að vera áberandi í þjóðfélagsumræðunni ertu líka líklegri til að ná langt í pólitík. Málið er nefnilega oft þannig að í prófkjörum velur fólk hæfasta einstaklinginn og ef þú hefur séð einhvern í sjónvarpsviðtali og hann/hún hefur staðið sig vel, er líklegra að þú trúir því að einstaklingurinn standi sig einnig vel á Alþingi.

Ég held að hugarfarsbreytingin eigi einfaldlega að vera sú að við hættum að setja á okkur kynjagleraugu, við metum stöðuna eftir því hvað fólk hefur að segja, er það hæft til þess að vera alþingismaður? Ég treysti alls ekki öllum til þess að sitja á hinu háa alþingi, það skiptir ekki máli hvort það er kona eða karl, ég kýs stefnu fólksins ekki kyn þeirra. Fyrir mér er aukaatriði hvort manneskjan sem stýrir mínu landi sé karl eða kona það sem skiptir mig máli er að hún geri það vel.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.