Siðlaus kosningabarátta

Það er rangt og siðlaust af Samfylkingunni að væna stjórnarflokkana um að hafa ekki áhuga á að bæta hag veikra barna og aldraðra. Slíkur málflutningur er örþrifaráð stjórnmálaflokks sem býr við hugmyndafræðilega örbirgð.

Samfylkingunni hefur mistekist að sannfæra kjósendur um að hún sé góður valkostur við Sjálfstæðisflokkinn varðandi hagstjórn, atvinnusköpun eða almenna velmegun. Kjósendur virðast flestir treysta Samfylkingunni síður í þessum málum, og þeir skilja jafnframt að undirstaða velfarðarmálanna er áframhaldandi uppgangur í hagkerfinu. Samfylkingin hefur því gripið til þess að grafa upp einstaka þætti í þjónustu hins opinbera þar sem framboðið er ónægilegt miðað við eftirspurn.

Þetta er til dæmis raunin um þjónustu Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, sem í daglegu tali er nefnd BUGL. Þar hefur orðið vandi og bið eftir þjónustu er óásættanleg, jafnvel þótt hluti af vandamálinu sé þess eðlis að ekki hefði verið hægt að sjá við því fyrirfram enda orsakast það ekki af verri þjónustu heldur auknum kröfum. Það breytir því þó ekki að allir stjórnmálaflokkar vilja án vafa leysa úr þeim vanda sem þarna er uppi, enda hafa stjórnvöld stóraukið fjárframlög til stofnunarinnar og á næsta ári opnar þar ný göngudeild.

Í janúar ritaði Eydís Sveinbjarnardóttir, sviðsstjóri á geðdeild LSH, grein í Morgunblaðið þar sem sérstaklega var fjallað um áform stjórnvalda um byggingu nýrrar álmu og stóraukinna fjárframlaga. Þau orð Eydísar undirstrika að stjórnarflokkarnir hafa sýnt metnað til að sinna þessum málaflokki. Og ekki verður Eydís sökuð um að hafa ritað grein sína í því skyni að verja pólitíska hagsmuni stjórnarflokkanna, enda er hún sjálf frambjóðandi Samfylkingarinnar í þessum kosningum.

Annan biðlista hefur Samfylkingin nefnt, en það er biðlisti eftir hjúkrunarrýmum í Reykjavík. Þetta er annað úrlausnarefni sem stjórnvöld hafa unnið markvisst að því að leysa úr. Nú þegar liggur fyrir að byggð verða 370 ný hjúkrunarrými á næstu árum en Samfylkingin hefur lofað að þau verði 400 nái hún völdum. Samfylkingin lofar að framkvæma á næsta kjörtímabili ákvarðanir sem núverandi stjórnvöld hafa þegar ákveðið.

Svo virðist að örþrifaráð Samfylkingarinnar sé að reyna að sannfæra fólk um það að stjórnarflokkarnir fylgi mannfjandsamlegri stefnu í málefnum veikra barna og gamalmenna. Og ekki hefur verið hikað við að halla réttu máli eða gera sér pólitískan mat úr eymd fólks.

Fram hefur komið í fréttum að tíu ára stúlka hafi ekki fengið innlögn þegar leitað var á sjúkrahús vegna sjálfsvígshugleiðinga hennar. Þetta hafa verið hryggileg mistök í læknisþjónustu, en væntanlega vita flestir að slík mistök eiga nákvæmlega ekkert skylt við flokkspólitískar deilur. Samfylkingarmaðurinn Össur Skarphéðinsson virðist þó ekki telja það fyrir neðan sína virðingu að beita slíku máli fyrir síg í pólitísku hnútukasti, eins og hann gerði í Silfri Egils í gær. Slíkur málflutningur er auðvitað ekkert annað en viðbjóðslegur og vonandi dettur engum í hug að dæma Össur eða Samfylkinguna eingöngu af þessu einstaka smekkleysi.

Á þessum síðustu vikum fyrir kosningar hefur Samfylkingin fallið í þann pytt að herja á kjósendur með óvönduðum málflutningi, dylgjum og útúrsnúningum. Hún dylgjar um mannvonsku stjórnarflokkana, lofar aðgerðum sem þegar er búið að ákveða – og beitir fyrir sig mistökum í læknisþjónustu til þess að leggja snöru fyrir andstæðinga sína í baráttunni. Mönnum kann stundum að hlaupa kapp í kinn í slagnum og segja ýmislegt ógætilegt. En þótt Samfylkingin tapi kosningunum er ekki þar með sagt að fulltrúar hennar þurfi líka að tapa sómakenndinni.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.