Enginn verkfræðingur á Alþingi

Eins og alþjóð veit er Alþingi skipað 63 þingmönnum sem taka ákvarðanir í okkar umboði um hvernig rétt sé að bæta okkar þjóð. Þessir 63 stjórnendur þjóðarinnar mynda ágætis þverskurð af þjóðinni og maður myndi ætla að í hópi af þessari stærðargráðu væri einnig þverskurður af menntun þjóðarinnar.

Eins og alþjóð veit er Alþingi skipað 63 þingmönnum sem taka ákvarðanir í okkar umboði um hvernig rétt sé að bæta okkar þjóð. Þessir 63 stjórnendur þjóðarinnar mynda ágætis þverskurð af þjóðinni og maður myndi ætla að í hópi af þessari stærðargráðu væri einnig þverskurður af menntun þjóðarinnar.

Á Alþingi eru birtar upplýsingar um alla þingmenn, menntun þeirra, fyrri störf, fjölskylduhagi og störf í þágu Alþingis. Stutt könnun pistlahöfunds á Alþingisvefnum leiddi í ljós að ef menntun þingmanna er skipt í hefðbundna flokka samanber algengustu deildum í háskólum landsins er niðurstaðan eftirfarandi:

Lögfræðimenntun: 12 (19,0%)
Menntun í félagsvísindum: 9 (14,3%)
Menntun í viðskiptum og hagfræði: 6 (9,5%)
Menntun í hugvísindum: 6 (9,5%)
Menntun í raunvísindum: 6 (9,5%)
Menntun í heilbrigðisgeiranum: 4 (6,3%)
Kennaramenntun: 4 (6,3%)
Menntun tengd sjávarútvegi: 4 (6,3%)
Menntun tengd landbúnaði: 3 (4,8%)
Tæknifræðimenntun: 1 (1,6%)
Önnur eða engin menntun: 8 (12,7%)

Verkfræðimenntun: 0 (0%)

Tilviljun?

Hrósið fær þó Sjálfstæðisflokkurinn fyrir að eiga eina þingmanninn með verkfræðimenntun á yfirstandandi kjörtímabili skv. vitund höfundar. Það var Gunnar Birgisson, en hann lét af þingstörfum árið 2006.

Verkfræðingar sinna mjög fjölbreyttum störfum í þjóðfélaginu og eru þeir að mati pistlahöfunds að verða sífellt meira áberandi í stjórnunarstöðum. Verkfræðingar eru forstjórar, bankastjórar, framkvæmdastjórar, verkstjórar og alls kyns stjórar og fræðingar. En enginn verkfræðingur er þingmaður. Nú geta menn spurt sig hvort þetta sé bara einskær tilviljun eða hvort einhverjar ástæður liggja að baki. Stórt er spurt.

Að líkindum geta margar ástæður legið að baki því hversu fáir verkfræðingar eru á þingi og telja má líklegt að eðli námsins spili þar eitthvað hlutverk. Þá má reyndar í staðinn spyrja hvort heilbrigðisvísindin séu eitthvað líkari alþingisstörfum heldur en störf verkfræðinga. Einnig má spyrja hvort alþingisstörf séu mjög ólík öðrum stjórnunarstörfum þar sem rétt ákvarðanataka og árangursríkar samningaviðræður eru lykilatriði. Höfundur lætur lesandanum eftir það skemmtilega verkefni að velta þessum spurningum fyrir sér og komast að eigin niðurstöðu.

Það skal sérstaklega tekið fram að könnun þessi er hvorki hávísindaleg né tölfræðilega marktæk en eins og tölfræðingar myndu orða það: Hún gefur sterkar vísbendingar.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)