Af hverju reykja Evrópubúar meira en Bandaríkjamenn?

Munurinn á reykmenningu og tíðni reykinga í Bandaríkjunum og Evrópu er gríðarlegur. Í Þýskalandi reykja 34% fullorðinna á meðan í Bandaríkjunum er þetta hlutfall einungi 19%. Af hverju stafar þessi gríðarlegi munur? Getur verið að Evrópubúar séu kannski bara ekki nægilega vel upp lýstir um skaðsemi reykinga?

Fyrir einhvern sem býr í bandarískri stórborg þar sem reikingar eru bannaðar nánast alls staðar nema utandýra er sláandi að upplifa reykingamenninguna í Þýskalandi. Að fara til Þýskalands er eins og að fara aftur til 8. áratugarins hvað varðar reykingar. Það eru reykingamenn á öðru hverju borði á hverju einasta veitingahúsi og flest veitingahús bjóða ekki einu sinni upp á reyklaus svæði. Á flugvöllum sér maður á víð og dreif þyrpingar af fólki standa í kringum risastóra öskubakka og reykský stíga upp. Á ráðstefnum eru öll opin svæði fyrir utan fundarherbergi full af reykstöðvum. Og almennt eru öskubakkar alls staðar (meira að segja inni á klósetbásum svo menn geti lagt frá sér sígarettuna rétt á meðan menn skeina sér).

Í Þýskalandi reykja um 34% fullorðinna. Á Spáni og í Japan er þetta hlutfall einnig um 34%; það er um 27% í Frakklandi og á Englandi. Í Bandaríkjunum reykja hins vegar einungis um 19% fullorðinna. (Þess má geta að á Íslandi reykja um 20% fullorðinna.)

Hvað skýrir þennan gríðarlega mun á tíðni reykinga milli Evrópu og Bandaríkjanna?

Hagfræðingarnir David Cutler og Edward Glaeser (báðir á Harvard) leita svara við þessari spurningu í nýlegri grein. Það fyrsta sem þeir skoða er hvort verðmunur á tóbaki eða munur á reglugerðum geti skýrt þennan mun. Svo er ekki. Verð á tóbaki er almennt mun hærra í Evrópu en í Bandaríkjunum vegna meiri skattlagningar og reglugerðir sem beint er gegn reykingum strangari.

Þeir benda á að samband virðist vera á milli tekna og reykinga bæði á milli landa og innan hvers lands. Þeim mun ríkari sem menn eru, þeim mun minna reykja þeir. Þetta samband getur þó einungis skýrt um 20% af muninum á tíðni reykinga milli Evrópu og Bandaríkjanna. Þeir benda á að munurinn milli Evrópu og Bandaríkjanna sé mestur á meðal þeirra best efnuðu.

Þriðji þátturinn sem þeir skoða er sambandið milli þess hversu heilsuskaðlegar menn telja reykingar vera og tíðni reykinga. Í ljós kemur að mun færri Evrópubúar telja að reykingar séu verulega heilsuskaðlegar. Cutler og Glaeser benda á að þetta samband sé til staðar ekki einungis á meðal reykingamanna heldur einnig á meðal þeirra sem ekki reykja. Af þessu draga þeir þá ályktun að þetta samband sé ekki til komið vegna þess að reykingamenn vilji ekki horfast í augu við hættuna sem þeim stafar af eigin reykingum.

Niðurstaða þeirra er að milli 25% og 50% á muninum á tíðni reykinga megi rekja til mismunandi viðhorfa til þess hversu heilsuspillandi reykingar eru.

Heimild: Cutler, C., og E. Glaeser, “Why do Europeans Smoke More than Americans”, NBER vinnupappír Nr. 12124, mars 2006.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.