Frelsi trúfélaga áréttað

Sjálfstæðisflokkurinn er í senn frjálslyndur og íhaldssamur, þar liggur hans sérstaða meðal hægri flokka og í því er falinn hans mesti styrkur. Þetta tvíþætta eðli flokksins endurspeglast í málefnastarfi á landsfundi.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er merkileg samkoma í flesta staði. Eflaust kæmi það óvildarmönnum flokksins mörgum hverjum á óvart hve stefnumótun flokksins er lýðræðisleg. Þegar ekki nást fram málamiðlanir er skorið úr grundvallarágreining með lýðræðislegri atkvæðagreiðslu þar sem oft er mjótt á munum.

Sjálfstæðisflokkurinn er í senn frjálslyndur og íhaldssamur, þar liggur hans sérstaða meðal hægri flokka og í því er falinn hans mesti styrkur. Þetta tvíþætta eðli flokksins endurspeglast í málefnastarfi á landsfundi.

Eitt af þeim málum sem tekist var á um á nýafstöðnum landsfundi var hvort heimila ætti forstöðumönnum trúfélaga að gefa saman samkynhneigt fólk. Þeir sem studdu tillögu þess efnis rökstuddu sína afstöðu á þann veg að ríkisvaldið ætti ekki að hlutast til um starfsemi trúfélaga og hverju trúfélagi ætti að vera frjálst að haga þessum málum með sínum hætti.

Þeir sem töluðu gegn tillögunni töldu of geyst farið með samþykkt tillögunnar. Íhaldssemi er vissulega dyggð og margt af því best í stefnu Sjálfstæðisflokksins er grundvallað á festu og íhaldssemi. Tregða til að haga seglum eftir vindi er aðalsmerki flokksins og skilur hann að miklu leyti frá öðrum stjórnmálaflokkum hér á landi.

En sú dyggð sem íhaldssemin er má ekki verða til þess að viðhalda ástandi sem er óréttlátt og brýtur gegn þeirri mannhelgi sem er flokkurinn stendur fyrir, að einstaklingurinn og frelsi hans sé ávallt í öndvegi. Frelsi einstaklingsins eru vissulega þau takmörk sett ekki sé gengið á frelsi annarra en þegar kemur að hjónavígslu samkynhneigðra á sá fyrirvari engan veginn við.

Frelsi einstaklingsins er ekki síst fólgið í því að hann fái að vera eins og hann er. Sú staðreynd að íslensk lög leggja bann við hjónavígslu samkynhneigðra og að frjálsum trúfélögum sé þannig óheimilt að gefa saman einstaklinga sem aðhyllast þá trú sem félögin boða er tímaskekkja. Um þetta var tekist á í umræðum um ofangreinda tillögu á landsfundinum.

Að þessu sinni urðu frjálslyndari viðhorf ofan á og landsfundur Sjálfstæðisflokksins áréttaði þannig grundvallarstefnu flokksins sem felst í frelsi einstaklinga og lágmarksafskiptum ríkisvaldsins. Mikilvægt er að hafa í huga að í þessu felst ekki að einstök trúfélög á borð við þjóðkirkjuna séu skylduð til að gefa saman samkynhneigða. Það er einfaldlega mál kirkjunnar að ákveða það.

Ástæða er til að fagna þessari afstöðu landsfundar sem er í fullu samræmi við grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins um frelsi einstaklingsins.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)