Er klerkastjórn í Hádegismóum?

Þann 5. apríl síðastliðinn birtist ritstjórnargrein í Morgunblaðinu sem bar heitið „Ákvörðun Írana“. Í þeirri grein birtast nokkað sérstakar fullyrðingar þar sem Írönum er hampað í deilu þeirra við Breta um sjóliðana 15 sem Íranir tóku höndum.

Þann 5. apríl síðastliðinn birtist ritstjórnargrein í Morgunblaðinu sem bar heitið „Ákvörðun Írana“. Í þeirri grein birtast nokkað óvenjulegar yfirlýsingar þar sem Írönum er hampað í deilu þeirra við Breta í sjóliðadeilunni. Ein þessara yfirlýsinga er efni þessa pistils. Hljóðar hún svo: „Nú er auðvitað ljóst, að hafi brezku sjóliðarnir verið í landhelgi Írana höfðu hinir síðarnefndu fullan lagalegan rétt til að handsama þá.“ Þessi fullyrðingin er röng.

Þann 23. mars síðastliðinn átti einkennilegur atburður sér stað. Íranir tóku 15 breska sjóliða höndum og héldu þeim í 13 daga. Bretar halda því fram að þeir hafi verið í íraskri landhelgi en Íranir að atburðirnir hafi átt sér stað í íranskri landhelgi. Rétt er að benda á að erfitt gæti reynst að sýna fram á á hvaða yfirráðasvæði atburðurinn átti sér stað þar sem landhelgi Írans og Íraks afmarkast af miðlínu Shatt al-Arab fljótsins sem ágreiningur er um hvar liggur. Jafnframt er rétt að benda á að Íranar eru tvísaga um hvar þeir tóku sjóliðana höndum. Hér á eftir verður sýnt fram á að ekki skipti lykilmáli hvort sjóliðarnir hafi verið í íranskri né íraskri landhelgi. Íran hafi yfirhöfuð ekki haft rétt á að handsama sjóliðana.

Strandríki hafa fullveldisrétt í landhelgi sinni. Eina takmörkunin á þessum rétti er að skip allra ríkja njóta þar réttar til friðsamlegrar farar í samræmi við tilteknar reglur þar að lútandi. Ef sýnt er fram á með óyggjandi hætti að sjóliðarnir hafi verið í íraskri lögsögu brutu Íranir hvort tveggja á fullveldisrétti Íraks og Bretlands. Í tilfelli Bretlands byggist það á því að herskip eru álitin framhald af fullveldi ríkis og njóta sem slík friðhelgi undan lögsögu annarra ríkja. Skiptir þá ekki máli hvort herskipið er flugmóðurskip eða árabátur. Í tilfelli Íraks byggist það á því að ófriðsamleg aðgerð fór fram á yfirráðasvæði þess. Ef aðgerð Írana átti sér staða í landhelgi Íraks er alveg ljóst að hún var ólögmæt.

Ef för skips er „ófriðsamleg“ um landhelgina getur strandríki meinað skipi frekari aðgang að landhelginni og skipað skipinu að yfirgefa landhelgina án tafar. Strandríkið getur jafnvel stöðvað för skipsins og hafið rannsókn á athöfnum þess.

Herskip eru hins vegar undanþegin slíkri rannsókn, stöðvun eða öðrum aðgerðum af sama meiði þar sem þau njóta friðhelgi. Ef herskip fer ekki eftir lögum og reglum strandríkisins um ferð um landhelgina og hefur að engu tilmæli sem gerð eru til þess um að virða þau getur strandríkið krafist þess að það fari þegar í stað úr landhelginni. Ef ríki verður ekki við slíkri beiðni getur ríkið gripið til harðari aðgerða. Hafa verður þó í huga að gæta verður hófs í öllum aðgerðum og ekki grípa til harðari úrræða en nauðsynleg eru hverju sinni.

Af fréttaflutningi um sjóliðana 15 verður hvorki séð að Íranir hafi bent sjóliðunum á að þeir væru í “íranskri” lögsögu eða að för þeirra um landhelgi Írans væri “ófriðsamleg”. Þeir virðast hafa handsamað þá án viðvarana. Slíkt er ekki í samræmi við ríkjandi hugmyndir. Á það sér skýringar sem eiga sér nokkra sögu. Íranar telja að þjóðréttarvenja heimili þeim að setja samþykki sitt sem skilyrði fyrir friðsamlegri för herskipa í gegnum landhelgi sína. Benda verður á að tilvist slíks réttar hefur verið dreginn all verulega í efa bæði af ýmsum ríkjum sem og sérfræðingum á sviði hafréttar. Rétt er að geta þess að í ritinu United States Responses to Excessive Martime Claims frá árinu 1996 kemur fram að 23 ríki (m.a. Súdan, Sómalía, Sýrland og Kongó) haldi fram að þau hafi slíkan rétt. Jafnframt verður að benda á að í hafréttarsamningi SÞ, sem 152 ríki (þó ekki Íran) eru nú aðilar að, er ekki kveðið á slíkan rétt. Í Genfarsamningnum frá 1958 um landhelgi og aðlægt belti er heldur ekki kveðið á um þennan rétt. Eins og gefur að skilja eru þessar hugmyndir Írana verulega vafasamar og standast hreinlega ekki nánari skoðun.

Það er því erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að Íran hafi ekki farið að viðurkenndum reglum í þessu máli hvort sem atburðirnir áttu sér stað í íraskri eða íranskri lögsögu. Fullyrðing Morgunblaðsins er því röng. Fjalla mætti um réttmæti fleiri fullyrðinga í fyrrnefndri ritstjórnargrein. Hér verður þó staðar numið.