Mótorhjólasumarið

Nokkur umræða hefur átt sér stað undanfarið um bifhjólamenn, aksturslag þeirra í umferðinni og öryggi. Umferðarlagabrotum hefur fjölgað og sífellt algengara er að bifhjólamenn stingi lögregluna af. Leitað hefur verið leiða til að sporna við þessari þróun en fá teikn eru á lofti.

Nokkur umræða hefur átt sér stað undanfarið um bifhjólamenn, aksturslag þeirra í umferðinni og öryggi. Umferðarlagabrotum hefur fjölgað og sífellt algengara er að bifhjólamenn stingi lögregluna af. Leitað hefur verið leiða til að sporna við þessari þróun en fá teikn eru á lofti.

Kastljós Ríkissjónvarpsins sýndi nýverið frá ofsaakstri bifhjólamanns á Suðurnesjum þar sem mótorhjólið fer hraðast í 288 kílómetra hraða en veðurskilyrði voru alls ekki með besta móti. Það vakti einnig mikla athygli þegar yfirlýsing barst frá Ruddum (www.ruddar.com) um áætlaðan hraðaakstur í sumar í mótmælaskyni við aðgerðarleysi stjórnvalda. Þetta hefur vakið hörð viðbrögð í samfélaginu bæði á meðal bifreiða- og bifhjólaökumanna. Þrátt fyrir þetta þarf almenningur að hafa í huga að gjörðir einstakra bifhjólamanna má ekki yfirfæra á alla bifhjólamenn en það vill oft verða niðurstaðan. Margir ef ekki flestir bifhjólamenn eru alfarið á móti hraðakstri í almennri umferð.

Bifhjólamenn á Íslandi eru um 11.000 talsins og fer ört fjölgandi. Það sést best þegar tölur yfir próf á mótorhjól eru skoðaðar en árið 2003 tóku rúmlega 300 manns mótorhjólapróf en á síðasta ári tóku yfir 1000 manns próf. Aukningin er því gríðarleg. Samfara þessu hefur innflutningur á mótorhjólum aukist en eftirspurn eftir hjólum hérlendis er mikil enda lækka notuð hjól lítið í verði. Þrátt fyrir þessa aukningu mótorhjóla á vegum landsins hefur lítið verið gert til að bæta aðstöðu og öryggi bifhjólamanna.

Það er kannski ekki óeðlilegt að slíkri fjölgun fylgi aukin umferðarlagabrot og slys á meðan ekkert er að hafst. Bifhjólamenn hafa lengi barist fyrir betri aðstöðu til að iðka áhugamál sitt en lítið hefur verið gert. Flestir eru á sama máli um að akstursbraut með góðri aðstöðu þar sem hjólamenn geta fengið útrás fyrir hraðafíkn sína á löglegan hátt myndi minnka hraðakstur á götum borgarinnar en þrátt fyrir þessar tillögur hefur ekkert verið framkvæmt. Bifhjólasamtök eru öll að vilja gerð til þess að leggja sitt að mörkum til að aðstoða lögreglu og yfirvöld í baráttunni gegn hraðakstri en félagsstarf bifhjólamanna er mjög virkt og í gegnum þau er eðlilegt að forvarnarstarf fari fram. Til að mynda tóku Bifhjólasamtök lýðveldisins eða Sniglarnir þátt í viðamikilli rannsókn á bifhjólaslysum í samvinnu við Umferðarráð og Rannsóknarnefd umferðarslysa til að bæta forvarnarstarf.

Stór þáttur í að bæta umferðaröryggi bifhjólamanna er öflugri ökukennsla en hún hefur farið batnandi á undanförnum árum. Það þyrfti þó að auka kennslu áhættuþátta í slysum og gera ráð fyrir sérstöku svæði undir verklega kennslu. Einnig er mikilvægt að við hönnum nýrra umferðarmannvirkja sé tekið tillit til bifhjólaökumanna. Ekki þarf að lýsa afleiðingum slysagildra líkt og vegrið sem sett hefur verið upp á Suðurlandsvegi og hefur gjarnan verið kallað ostaskeri.

Nýlega samþykkti Alþingi lög sem gera ráð fyrir lágmarkshlífðarfatnaði bifhjólamanna en á þann hátt er reynt að minnka manntjón þegar slys eiga sér stað. Sýnt hefur verið fram á að bifhjólamenn séu 21 sinni líklegri til þess að látast í umferðarslysi en ökumenn eða farþegar bifreiða að teknu tilliti til ekinna kílómetra hvert ár. Þessi lagasetning er án efa fyrsta skrefið að auknu umferðaröryggi bifhjólamanna en betur má ef duga skal.

Latest posts by Sæunn Björk Þorkelsdóttir (see all)