Græn skref áfram … og til hliðar

Nýlega kynntu yfirvöld Reykjavík það sem þau kjósa að kalla græn skref í átt til meiri umhverfisverndar og betri lífsgæða í höfuðborginni. Með þeim tekur stærsta sveitarfélag landsins afgerandi og nauðsynlega forystu í umhverfismálum á sveitarfélagastiginu. Og ber að fagna vel og innilega. En grænu skrefin eru misstór, ekki tímasett og orka sum hver eilítið tvímælis.

Margir hafa beðið eftir einhvers konar aðgerðaráætlun Reykjavíkur á sviði umhverfismála. Einhverju sem meitlar betur í stein þau kosningaloforð sem sett voru fram fyrir ári síðan. Hún hefur nú loks litið ljós í formi Grænna skrefa Reykjavíkur.

Grænu skrefin eru metnaðarfullur áfangi í átt til aukinnar umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar á höfuðborgarsvæðinu. Með þeim tekur Reykjavíkurborg afgerandi forystu í þessum málaflokki og ber að hrósa fyrir metnaðinn. Nýi meirihlutinn í borginni sýnir og sannar að umhverfismálin eru ekkert einkaefni vinstri flokka, nema síður sé.

Mörg þeirra tíu skrefa sem áætlunin tekur til eru mjög metnaðarfull. Til dæmis er stefnt að því að meiri en helmingur bíla í eigu borgarinnar verði knúinn með visthæfum hætti. Stefnt er að gróðursetningu hálfrar milljón trjáa í borgarlandinu, breikkun og upphitun hjólastíga með bættu vetrarviðhaldi, sértunnum fyrir dagblöð og áfram má lengi telja.

Grænu skrefin eru þó ekki aðgerðaáætlun að því leyti að flest markmiðanna eru ekki tímasett. Maður hlýtur þó að gefa sér það að þeim eigi öllum að vera lokið áður en kjörtímabilinu lýkur. Ef svo er þá er nóg framundan fyrir Umhverfissvið borgarinnar og það góða starfsfólk sem þar vinnur. Vonandi fær það áfram mikinn og góðan stuðning frá hinum kjörnu fulltrúum sem með þeim vinna.

Nokkur af hinum grænu skrefum Reykjavíkurborgar eru mál sem hafa ratað inn í umræðuna undanfarin misseri.

Eitt græna skrefið á að taka á loftgæðum í borginni. Þar segir að helsta leiðin til þess sé að sporna við notkun nagladekkja í borginni í samráði við ríki og nágrannasveitarfélög. Skiljanlegt markmið, enda er uppspænt malbik stærsta einstaka uppspretta svifryks í borginni. Það er þó ekki tekið neitt nánar á því hvernig gert er ráð fyrir að sporna við notkun þeirra. Bann við notkun nagladekkja væri misráðið (og ósanngjarnt) en gjaldtaka þeim mun fýsilegri. Gjaldið myndi nýtast til að greiða fyrir vegslit sem nagladekkin valda og bættri vetrarþjónustu á gatnakerfinu.

Hygla á visthæfum bílum í umferðinni með því að bjóða þeim upp á gjaldfrjáls afnot af bílastæðum í eigu borgarinnar. Jákvæð skilaboð, en hins vegar afleitt markmið. Bílastæði í eigu borgarinnar eru einungis rétt um 3000, eða eilítill dropi í hafsjó þeirra tug- eða jafnvel hundruða þúsunda gjaldfrjálsra bílastæða annars staðar í borginni. Jákvæð áhrif á markaðinn verða því lítil sem engin. Verslunarmenn í miðbænum reiða sig líka á að gjaldtakan viðhaldi hárri bílastæðaveltu, og að einstakir bílar taki ekki upp verðmæt stæði í lengri tíma. Þeir taka því væntanlega ekkert sérstaklega vel þegar Príusum verður lagt heilu og hálfu dagana í bestu stæðin á Laugaveginum.

Strætó fær sinn skerf af grænum skrefum. Flest þeirra jákvæð og mjög tímabær. Markmiðið um þægilegra greiðslufyrirkomulag er kærkomið og sennilega það sem setja ætti mestan kraft í. Forgangur fyrir Strætó er mikilvægur þáttur í að auka samkeppnishæfni hans í umferðinni, ekki síst framhjá stöðum þar sem gjarnan myndast biðraðir á annatímum.

Markmið um niðurfellingu fargjalda í Strætó fyrir námsmenn er frekar vafasamt. Ef markmiðið er að gera vel við námsmenn sem í dag eru stærsti kúnnahópurinn, þá gott og vel. En ef markmiðið er að bæta loftgæði og draga úr þörf fyrir umferðarmannvirki – eins og er hið yfirlýsta markmið – er verið að verja hinum dýrmæta tekjustofni Strætó í ranga hluti. Nú þegar er mjög mikill munur á rekstrarkostnaði einkabíls og skólakorts með Strætó og óþarfi að fara út í tilraunamennsku með það að fella rekstrarkostnað skólakortsins niður í núllið. Það hefur augljóslega lítil sem engin áhrif. Ef Strætó á einhvern tímann að hafa áhrif á loftgæði og draga úr þörf fyrir umferðarmannvirkjum þarf notkun hans að verða minnst 15-20% á samgöngumarkaðnum. Fjölgun um 100% – sem hlýtur að teljast mikil bjartsýnisspá – myndi einungis skila 8-10% hlutdeild. Þetta er því augljóslega illa valið markmið. Sækja þarf í hópa sem í dag nota Strætó lítið sem ekkert.

Vandi Strætó er vítahringur þjónustu og notkunar annars vegar, og ímyndarvandi hins vegar. Niðurfelling fargjalda fyrir skólafólk er varla til þess fallið að bæta ímyndarvandann. ‘Strætó er fyrir ungt fólk og námsmenn’ eru skilaboðin sem verið er að senda út í samfélagið. Vítahringurinn verður aldrei brotinn upp nema stórauka þjónustuna og fjárfesta í auknum gæðum Strætó. Aukin tíðni, áreiðanleiki og styttri ferðatími er það sem þarfnast fjárfestingar. Það gagnast fátækum námsmönnum ekki síður, þar sem tími þeirra er peningar eins og annarra.

En almennt séð hlýtur þetta að geta talist vera ágætis byrjun. Vonandi ávísum á það sem koma skal hjá öðrum sveitarfélögum og landinu öllu.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.