Þegar kynfræðslan féll niður

Ein mestu vonbrigði seinasta þings voru þau að frumvarp um bjór- og vínsölu í matvöruverslunum skyldi ekki hafa orðið að lögum. Þótt þægilegt væri að skella skuldinni á vinstri græna, sem hótuðu málþófi gegn frumvarpinu, þá hljóta menn auðvitað að spyrja sig að því til hvers að hafa hægrisinnaðan meirihluta, ef hann getur ekki klárað einföld mál eins og þetta.

Ein mestu vonbrigði seinasta þings voru þau að frumvarp um bjór- og vínsölu í matvöruverslunum skyldi ekki hafa orðið að lögum. Þótt þægilegt væri að skella skuldinni á vinstri græna, sem hótuðu málþófi gegn frumvarpinu, þá hljóta menn auðvitað að spyrja sig að því til hvers að hafa hægrisinnaðan meirihluta, ef hann getur ekki klárað einföld mál eins og þetta.

Ég man ég las eitt sinn sögu út í grunnskóla sem átti að lýsa kynfræðslu fyrr á öldinni. Nemendurnir í sögunni áttu líffræðibók sem innihélt tvær „dónalegar“ blaðsíður um hvernig mannkynið fjölgar sér. Að sjálfsögðu biðu krakkarnir spenntir alla önnina eftir að farið yrði í efnið, en þegar komið var að opnunni góðu tilkynnti kennarinn að bekkurinn væri kominn aðeins eftir á og því yrði næsta kafla sleppt.

Það að fylgjast með framgangi þingmála sem lúta að verslun með áfengi er í raun nákvæmlega sama tilfinning og nemendurnir í skáldsögunni að ofan upplifðu. Síðastliðinn fjögur ár hefur greinarhöfundur fylgst með fréttum af áfengisverslunarfrumvarpinu, hangið á Alþingisvefnum til að sjá hvort málið kæmist úr nefnd eða inn í aðra umræðu, og skrifað um það fjölda greina. Eina sem þessi æsingur hefur skilað, er að gera vonbrigðin með að ekki hafi tekist frumvarpið að lögum, enn meiri en ella hefði orðið.

Manni líður eiginlega eins og hálfgerðum hálfvita, að hafa trúað því að hægt væri að fá löggjafann til að kjósa um löggjöf, í stað þess að röfla um eitthvað tæknikratískt bull daginn út og daginn inn. Ég man satt að segja ekki eftir neinni spennandi atkvæðagreiðslu á seinustu fjórum árum. Einu frumvörpin sem verða að lögum eru stjórnarfrumvörp samin í ráðuneytum og úrslit annarra þingmála ráðast ekki einu sinni með atkvæðagreiðslum, heldur með dagskrárgerð.

Í stað þess að vísa málum heiðarlega frá eftir fyrstu umræðu, eru málin send í nefnd og aldrei tekin fyrir þar, eða látin fara út úr nefnd og sett aftarlega á dagskrána í seinustu viku þingsins svo þau nái aldrei í aðra og þriðju umræðu. Meðan á þessu stendur fá ráðherrar að skvísa inn lagafrumvörpum á seinustu viku þingsins, í fullkomnu virðingarleysi við löggjafann. Hvers vegna dugði til dæmis vika til að samþykkja hin aðkallandi lög um vörugjöld á metanbifreiðir (þessar tvær sem hér eru) en fjögur ár dugðu ekki til að koma lögum um skynsamari áfengisverslun inn í þriðju umræðu?

Nú liggur það reyndar fyrir að líklegast hefði umrætt frumvarp orðið að lögum ef ekki væri fyrir málþófshótun vinstrigrænna á seinustu klukkustundum þinghalds. En eins forkastanleg og andlýðræðisleg og slík hótun er, þá breytir það því ekki að það er algjörlega á ábyrgð stuðningsmanna gefins frumvarps eða þingmeirihlutans hverju sinni að sjá til þess að málið fari alla leið. Menn hefðu einfaldlega átt að beita þrýstingi sínum og afgreiða þetta mál fyrir löngu síðan í stað þess að bíða með það fram á seinustu stundu, því þótt hegðun VG í þessu máli sé reiðarslag fyrir frjálslynda kjósendur, þá er hún varla óvænt eða óvenjuleg.

Allar afsakanir sem menn kunna gefa eru í besta falli jafngóðar og „Ég kom svo seint heim úr útilegunini að ég náði ekki að læra heima.“ Það verður því, því miður, að segjast að þeir sem að frumvarpinu stóðu hafi glatað einu besta tækifæri allra tíma til jákvæðra breytinga í áfengismálum Íslendinga. Þannig hafa þeir brugðist trausti þess frjálslynda fólks sem kaus þá.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.