Hrós vikunnar

Ef það er einhver eða öllu heldur einhverjar sem hafa unnið sér til hróss fyrir verkefni vikunnar þá hlýtur það að vera íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu.

Undanfarna 9 daga eða svo hefur íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu staðið í ströngu á fyrnasterku alþjóðlegu æfingamóti sem ber nafnið Algarve Cup 2007. Ólíkt því sem oftast um ræðir í æfingaleikjum eða -mótum hjá karlalandsliðum tóku flest af sterkustu kvennalandsliðum heims þátt í þessu móti. Það er skemmst frá því að segja að íslensku stúlkurnar stóðu sig með stakri prýði. Liðið endaði í 9. Sæti, vann tvo leiki, gerði jafntefli í einum leik og tapaði aðeins einum. Enn fremur var markatala liðsins glæsileg en liðið skoraði ellefu mörk en fékk aðeins fimm á sig. Til að auka enn á hróður stúlknanna þá varð Margrét Lára Viðarsdóttir (jafn)markahæsti leikmaður mótsins með 4 mörk. Hún missti þó af markakóngstitlinum þar sem bandaríska stúlkan Carli Lloyd, sem einnig skoraði 4 mörk, var tekin af velli þegar 10 mínútur voru eftir af síðasta leik hennar á mótinu og spilaði hún því færri mínútur en Margrét.

Í þessum fjórum leikjum spilaði Ísland við Portúgal, Kína, Írland og Ítalíu. Liðið vann fyrstu tvö liðin, gerði jafntefli við Íra en tapaði naumlega, 1-2, gegn ítölsku stúlkunum. Það má því gera ráð fyrir að Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari og Guðni Kjartansson aðstoðarþjálfari landsliðsins séu á réttri braut með liðið. Þó að ekki megi gera lítið úr starfi þeirra enda mjög vandasamt verkefni vil ég þó eigna stúlkunum sjálfum sem mestan heiður fyrir þennan glæsilega árangur. Stelpurnar hafa ekki aðeins verið góð landkynning úti í Algarve heldur hafa þær einnig kynnt sig á skemmtilegan hátt fyrir hinum oft á tíðum karllægu knattspyrnuaðdáendum Íslands.

Þann tíma sem landsliðið hefur verið á Algarve hafa tvær stúlknanna, Guðbjörg Gunnarsdóttir og Katrín Ómarsdóttir, haldið úti dagbók og birt færslurnar á hinum geysivinsæla fótboltafréttavef www.fotbolti.net. Stúlkurnar eru stórtskemmtilegir pennar og hafa á hrífandi hátt kynnt lesendum fyrir afrekum landsliðskvennanna og starfsmanna landsliðsins innan sem utan vallar. Mæli ég eindregið með að sem flestir geri sér ferð yfir á umrædda vefsíðu og renni yfir dagbókafærslurnar enda tel ég að þær ásamt hinum glæsilega árangri landsliðsins hafi gert mikið til þess að auka áhuga landans á umfjöllun um íslenska kvennaknattspyrnu. Umfjöllun sem hefur lengi verið af skornum skammti en horfir nú vonandi til betri vegar. Í því samhengi má nefna að áðurnefnd Margrét Lára gerðist nýlega fréttaritari á www.fotbolti.net þar sem hún leggur áherslu á að gera jafnt innlendri sem erlendri kvennaknattspyrnu góð skil.

Það er nákvæmlega svona skemmtilegt og drífandi framtak sem þurfti til þess að gera kvennaboltanum hærra undir höfði og það er sérstaklega ánægjulegt að frumkvæðið komi frá stelpunum sjálfum.

Að lokum vil ég óska stelpunum okkar til hamingju með glæsilegan árangur og ég hlakka mikið til að fylgjast með blómstrandi umfjöllun um íslenska kvennaknattspyrnu í náinni framtíð.