Píkan mín er glöð

Menningarpistill dagsins er helgaður píkum. Helmingur mannkyns er með píku og meirihluti mankyns kemur við píkur á hverjum degi. Samt förum við flest hjá okkur þegar þetta orð er notað og sumum finnst eins og þeir séu að blóta.

Menningarpistill dagsins er helgaður píkum. Helmingur mannkyns er með píku og meirihluti mankyns kemur við píkur á hverjum degi. Samt förum við flest hjá okkur þegar þetta orð er notað og sumum finnst eins og þeir séu að blóta.

„Byrjum bara á orðinu „píka“. Það ískrar í því. Píííka. Fæstir gera sér grein fyrir að það er komið úr norsku. Pike. Og þýðir stúlka. Stúlka, bæði að ofan og neðan. Ein og sama persónan. En engum finnst það sérstaklega fallegt. Samt er ekkert betra orð til. Ekki getum við alltaf sagt „kynfæri“. Það er fáránlegt orð og algjörlega ósexí. Hljómar helst eins og verkfæri. Eða handfæri. Ef maður ætlaði að nota það í ástaleik, til að tala nú rétt og fallegt mál – „Viltu strjúka á mér kynfærin elskan“ – mundi maður missa alla löngun á stundinni.“ Þetta brot er úr leikritinu Píkusögur eftir Eve Ensler í íslenskri þýðingu Ingunnar Ásdísardóttir.

Það eru sönn píku-gleðitíðindi að það sé fjallað um píkur og fólk kynnist píkum svolítið nánar. „Í fyrsta lagi er bara hreint ekki svo auðvelt að kynnast píkunni á sér. Það líða vikur, mánuðir, stundum ár á milli þess að konur skoði á sér píkuna. Það var tekið viðtal við konu sem er háttsett í viðskiptalífinu og hún sagði að hún hefði ekki tíma. Það færi heill vinnudagur í að skoða á sér píkuna, sagði hún. Maður verður að leggjast niður, á bakið, fyrir framan spegil, helst stóran og frístandandi. Birtan verður að vera rétt og þegar maður er loksins búinn að koma sér í rétta stellingu, er eins víst að spegillinn sé fyrir ljósinu og skyggi á. Þá verður maður að sveigja sig og reigja á alla kanta, teygja upp hausinn og fram álkuna svo að maður ætlar að farast í bakinu. Og þá er maður orðinn svo þreyttur að maður er alveg búinn. Hún sagðist ekki hafa tíma til þess arna. Hún var önnum kafin,“ segir í inngangskafla verksins sem er í senn fróðlegt, áhrifaríkt og bráð skemmtilegt.

Píkusögur er verk sem allir ættu að sjá og verður á V-dögunum sem verða haldnir um næstu helgi á fjórum stöðum á landinu. Þetta er í fyrsta skipti sem haldnir eru fjórir V-dagar í röð og boðskapur þessa merkilega dags er breiddur út á landsbyggðinni.

V-dagurinn hefur nú verið haldinn víða um heim en V-dagssamtökin voru stofnuð í New York árið 1998. Markmið alþjóðlegu V-dagssamtakanna er að binda endi á ofbeldi gegn konum um allan heim og munu samtökin starfa þar til því markmiði hefur verið náð.

Fræðsla er forsenda þess að fólk geti skilið á milli þess hvað er rétt og rangt. Fólk er hins vegar almennt mjög illa frætt um píkur og margir vita ekki einu sinni hvað þeir eiga að kalla kynfæri sín. Það er mikilvægt að opna umræðu um þessi mál og með því að opna umræðuna og fræðast um vandann vinnum við á móti því sem rangt er. Píkur geta því miður ekki sjálfar talað og verðum við því að taka saman höndum og tala um þær og fyrir þær. „Ef píkan á mér gæti talað mundi hún tala um sjálfa sig eins og ég, hún mundi tala um aðrar píkur og hún mundi leika í píkusögum.“

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)