Stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja “út í móa”

Á morgun hefst í Fífunni, Kópavogi, stórsýning tileinkuð tækniþróun og þekkingariðnaði sem nefnist Tækni og vit. Á sýningunni munu yfir 100 fyrirtæki og stofnanir kynna starfsemi sína. Þar sem mörg sprotafyrirtæki munu kynna starfsemi á sýningunni er ekki úr vegi að fjalla um stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi.

Á morgun hefst í Fífunni, Kópavogi, stórsýning tileinkuð tækniþróun og þekkingariðnaði sem nefnist Tækni og vit. Á sýningunni munu yfir 100 fyrirtæki og stofnanir kynna starfsemi sína. Nokkur áhersla er á nýsköpun og sprotafyrirtæki á sýningunni, enda má í raun segja að sýningin sé afrakstur tækni- og þekkingarsköpunar síðustu ára og áratuga. Meðal sýnenda verða einnig fjölmörg fyrirtæki og stofnanir sem líklega munu halda uppi kyndli íslenskra þekkingarfyrirtækja á næstu árum. Sérstök athygli er vakin á sprotatorgi Samtaka Iðnaðarins (SI) og Samtaka Sprotafyrirtækja (SSP) ásamt sýningarbás Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs við Háskóla Íslands.

Í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á nýsköpun og sprotafyrirtæki á sýningunni er ekki úr vegi að skoða aðeins stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi og jafnframt hvers vegna það er mikilvægt fyrir þjóðfélagið að styðja vel við þau.

Áður en hægt er að byrja að tala um stuðningsumhverfi eða mikilvægi sprotafyrirtækja er nauðsynlegt að skilgreina hvað sprotafyrirtæki er, en það er atriði sem virðist hafa gleymst í mörg ár. Almennt hafa allir verið mjög jákvæðir í garð sprotafyrirtækja, nýsköpunar og frumkvöðlastarfssemi en þegar menn eru spurðir hvað þessi orð þýða hefur verið fátt um svör, minnir að mörgu leiti á söguna um nýju fötin keisarans! Til þess að skipuleggja og efla stuðningsumhverfið, s.s með samkeppnissjóðum, skattaívilnunum og öðrum stuðningsaðgerðum er nauðsynlegt að til sé greinargóð skilgreining og lagarammi um það hvað sprotafyrirtæki er.

Samkvæmt skilgreiningu SSP er sprotafyrirtæki: “fyrirtæki sem sprottið er upp úr rannsókna- eða þróunarverkefni háskóla, rannsóknarstofnana eða annarra fyrirtækja. Sprotafyrirtæki byggir á sérhæfðri þekkingu, tækni eða öðru nýnæmi á því sviði sem fyrirtækið starfar á. Þróunarkostnaður fyrirtækjanna er að minnsta kosti 10% af veltu.” Einnig er talað um að sprotafyrirtæki séu í 2. deild ef veltan er á milli 10 og 100 milljóna á ári, í 1. deild ef ársveltan er á milli 100 og 1.000 milljóna á ári og úrvalsdeild (fullvaxta sproti) ef veltan fer yfir milljarð á ári.

Sprotafyrirtæki (og raunar fyrirtæki almennt) skila þjóðfélaginu miklum arði. Fyrirtækin skapa atvinnu og auka þannig skatttekjur ríkissjóðs sem skila sér síðan aftur út í þjóðfélagið. Fyrirtækin framleiða vörur sínar eða þjónustu og auka með því landsframleiðslu og skapa þannig aukinn hagvöxt. Sprotafyrirtæki nota mun stærri hluta sinna tekna í rannsókna- og þróunarstarf en önnur fyrirtæki og stuðla þannig að aukinni þekkingu og jafnvel betri menntun í þjóðfélaginu. Fólk gleymir því einnig oft að jafnvel þó að fyrirtæki fari á hausinn eftir nokkurra ára starf þá skilar fyrirtækið mikilvægri þekkingu og reynslu áfram út í samfélagið. Var OZ til dæmis klúður sem þjóðfélagið tapaði á? Alls ekki! Ef farið væri ofan í saumana á því hvað fyrrverandi starfsmenn OZ eru að gera í dag væri öllum það ljóst að reynsla þeirra og þekking hefur skilað sér margfalt til baka.

Stuðningsumhverfið á Íslandi undanfarin ár hefur að mörgu leiti einkennst af góðum vilja en takmarkaðri þekkingu og slakri skipulagningu. Nokkrir aðilar hafa unnið gott starf svo sem Impra, Rannís, Rannsóknarþjónusta HÍ og fleiri. Hins vegar hefur vantað heildaryfirsýn og aukið fjármagn, bæði frá atvinnulífinu og stjórnvöldum. Á sprotaþingi SI sem haldið var í byrjun febrúar kynntu tveir ungir menn rannsóknaverkefni sitt sem bar heitið “Stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja á Íslandi”. Þar komast þeir að þeirri niðurstöðu að íslenska stuðningsumhverfið sé “út í móa”. Þar er átt við að það sé mjög flókið, margar litlar, mismunandi og misgóðar stuðningsaðferðir í boði og gríðarlega erfitt að fá upplýsingar um þann stuðning sem í boði er og hentar hverjum og einum. Það var einnig álit skýrsluhöfunda, og er pistlahöfundur þeim hjartanlega sammála, að stórefla þurfi innlenda samkeppnissjóði. Sameiginlegt markmið þeirra sem starfa í stuðningsumhverfi sprotafyrirtækja hlýtur því að vera að skilgreina markmiðin vel og straumlínulaga stuðningsumhverfið svo hægt sé að keyra eftir hraðbraut stuðningsaðgerða í stað þess að valsa út í móa! Ef við náum því markmiði mun Ísland skipa sér í fremstu röð hátækni- og þekkingarþjóða í framtíðinni.

Innovit
Tækni og vit 2007

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)