Ekki enn eitt kennaraverkfall

Margt stefnir í að grunnskólakennarar fari í verkfall í haust. Það er ekki hægt að bjóða nemendum, foreldrum eða kennurum upp á annað verkfall, þremur árum eftir að bundinn var endir á síðasta verkfall kennara með lögum árið 2004.

Margt stefnir í að grunnskólakennarar fari í verkfall í haust. Það er ekki hægt að bjóða nemendum, foreldrum eða kennurum upp á annað verkfall, þremur árum eftir að bundinn var endir á síðasta verkfall kennara með lögum árið 2004.

Bitbeinið nú er hvort grunnskólakennarar hafi dregist aftur úr almennri kjaraþróun í landinu miðað við síðustu samninga. Grunnskólakennarar telja sig hafa dregist aftur úr öðrum opinberum starfsmönnum á tímabilinu.

Það er gömul saga og ný grunnskólakennarar séu óánægðir með kjör sín. Verkföll árin 1995, 1997 og 2004 sýna að megn óánægja hefur lengi verið innan stéttarinnar og talið hefur verið að eina leiðin til þess að knýja fram kjarabót sé með því að leggja niður störf.

Verkfallsvopnið getur hins vegar reynst tvíbent. Með reglulegum verkföllum sínum hafa kennarar tapað samúð samfélagsins fyrir bættum kjörum sínum þar sem verkföll bitna óþyrmilega á nemendum, foreldrum, ættingjum og atvinnulífinu í heild sinni.

Kennarar búa einnig við það böl að margir álíta að kennsla sé ekki fullt starf, heldur hlutastarf með löngum leyfum um jól, páska og á sumrin. Fáar aðrar atvinnustéttir búa við það álit að starf þeirra sé í raun og veru ekki fullt starf, nema þá einna helst alþingismenn.

Á tyllidögum og í hátíðarræðum þar sem rædd er framtíðarsýn samfélagsins er hefð fyrir því að ræða um að lengi búi að fyrstu gerð og um aukna og bættari menntun sem grundvöll frekari velmegunar samfélagsins. Hluti af því er að búa kennurum betri kjör en nú eru til staðar.

Með vísan til þess er og meðan grunnskólar eru á hendi hins opinbera, ber að taka kjaramál grunnskólakennara til endurskoðunar, ásamt vinnufyrirkomulagi og umgjörð grunnskólans. Mikilvægt er að skapa frið og sátt um þessar einingar svo reglubundnar kjaradeildur heyri sögunni til. Hluti af því getur verið að breyta rekstrarfyrirkomulagi. Til þess að svo verði þurfa bæði fulltrúar launanefndar sveitarfélaganna og kennaraforrystunnar að hugsa út fyrir kassann, gefa eftir í kröfum sínum og ná samkomulagi, hugsanlega með aðkomu ríkisvaldsins.

Takist það ekki er spurning hvort sveitarfélögin valdi því hlutverki sínu að reka grunnskóla. Verður þá að skoða aðra kosti og hugsanlegan einkarekstur sem byggður er á þjónustusamningum.

Grunnmenntun er fjárfesting til framtíðar. Það er því brýn nauðsyn að skapa takist þá umgjörð sem þarf til þess að friður ríki og stöðugleiki í grunnskólum og að aðgerðir þær sem nú sé ráðist í tryggi að þessi markmið náist.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.