Kjósendur keyptir

Frambjóðendur Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi eru í besta falli örvæntingarfullir. Í versta falli bera aðgerðir þeirri nú í vikunni vott um lýðskrum af áður óþekktri stærðargráðu. Lagst var svo lágt í að reyna kaupa kjósendur að það var gert í bókstaflegri merkingu. Hvað fleira ætla Samfylkingin að bjóðast til að greiða næst á eftir veggjaldinu í Hvalfjarðargöngin til að kaupa sér fylgi?

Það var ekki bara virðisaukaskattur á matvæli sem lækkaði þann 1. mars síðast liðinn. Spölur ehf. lækkað veggjaldið í Hvalfjarðargöngum og er þannig gjald fyrir almenn ökutæki nú 900 kr. í stað 1000 kr. Sama dag sáu frambjóðendur Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi ástæðu til að mótmæla gjaldtökunni og gáfu vegfarendum frítt far um göngin. Þetta upphlaup er allt hið furðulegasta og greinilegt að samfylkingarfólk hefur enn og aftur ekki hugsað baráttumál sitt til enda.

Látum vera að flokkur sem kennir sig við nútímalega jafnaðarmannastefnu berjist fyrir því að allir skattborgarar greiði fyrir afnot sumra af ákveðnum þægindum eða þjónustu. Það hefur lengi vel verið eitt helsta stefnumál vinstri manna og engar breytingar þar á bæ í vændum. Hitt eru öllu verra að flokkur sem boðar samræðustjórnmál og lýðræðislega umræðu þurfi að grípa til þess ráðs að reyna múta kjósendum til fylgis við sig.

Í kosningabaráttu er vel þekkt að flokkar bjóði upp á kaffi og kleinur á kosningaskrifstofum og sumir jafnvel halda í þá hefð að bjóða kjósendum upp á akstur á kjörstað undir þeim formerkjum að mikilvægt sé að kjósendur nýti kosningarétt sinn og hafi áhrif á samfélag sitt og hvaðeina. Í síðustu sveitastjórnarkosningum var ákveðinn Framsóknarflokkur sakaður um mjög ólýðræðisleg vinnubrögð þegar upp komast að starfsmönnum hans hafði verið greitt í peningum allt eftir því hve marga kjósendur þeir náðu að draga á kjörstað. Lítið fréttist af samfylkingarmönnum hlaupa til og verja þann gjörning framsóknarmanna, þvert á móti.

Rétt væri að Samfylkingin liti nú í eign barm og skoðaði hvaða gjörning frambjóðendur á vegum flokksins stóðu fyrir. Aðgangur vegfarenda í göngin var væntanlega greiddur úr kosningasjóði Samfylkingarinnar. Ekki fylgdi fréttinni að frambjóðendur hafi greitt þetta úr eign vasa. Setjum þetta í samhengi við áherslur Samfylkingarinnar um lýðræðisleg vinnubrögð og virðingu fyrir lögunum.

Þingmenn Samfylkingarinnar samþykktu nýverið allir sem einn, auk annarra, lög um fjármál stjórnmálasamtaka og tóku þátt í að samþykkja aukin fjárframlög ríkissjóðs til stjórnmálaflokkanna. Ein röksemdin fyrir samþykkt laganna var sú að lögin væri til þess fallinn að efla lýðræðið í landinu og auka traust almennings á stjórnmálastarfi. Samfylkingin sýndi vilja sinn til að ná þessum markmiðum í verki með því að bera fé á kjósendur.

í 117. gr. laga um kosningar til Alþingis er svo lagaregla sem frambjóðendur Samfylkingarinnar ættu að kynna sér. Þar stendur:

Það er óleyfilegur kosningaáróður og kosningaspjöll:
a. að bera á mann fé eða fríðindi til að hafa áhrif á hvort hann greiðir atkvæði eða hvernig hann greiðir atkvæði,
[…]

Það fer ekki milli mála að frambjóðendur Samfylkingarinnar buðu vegfarendum við Hvalfjarðargöng ákveðna fjárhæð til að vekja athygli á málsstað sínum og afla honum fylgis. Ólíklegt er að meðan þessu lýðskrumi stóð hafi kjósendur svo vinsamlegast verið beðnir að kjósa ekki Samfylkinguna í vor. Ef umrætt atvik er ekki ólöglegur kosningaáróður hvað þarf þá til?

Forvitnilegt væri svo að vita til hvaða örþrifaráða Samfylkingin hyggst svo grípa til þegar nær dregur kosningum og höndin fer að skjálfa. Munu frambjóðendur stilla sér upp fyrir framan matvöruverslanir og greiða fyrir matarkaup kjósenda til að mótmæla háu matarverði þegar matarverð lækkaði 1. mars? Það væri allt eins líklegt.


Myndin er af samfylkingarfólki við Hvalfjarðargöng og birt með leyfi Vesturlandsblaðsins Skessuhorns

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.