Hver í sínu sauðahúsi

Við búum í samfélagi sem lítur flestum ef ekki öllum þeim stöðlum sem einkenna og skilgreina samfélag. Þar á meðal er að finna mjög staðlaða félagslega hópaskiptingu sem skipar hverjum einstaklingi í sess með ákveðnum hluta samborgara sinna.

Ég er ungur (eða því vil ég allavega halda fram), karlmaður, námsmaður, kennari, íþróttamaður og líklega mjög margt fleira. Allt eru þetta þættir sem skilgreina mig á einn eða annan hátt innan þess samfélags sem við myndum. Samkvæmt einni þjóðfélagsrýni mætti líta á mig sem ómenntaðan láglauna bæjarstarfsmann, á meðan önnur rýni skilgreinir mig sem ungan, efnilegan námsmann á framabraut. Ég á persónulega frekar erfitt með að líta á sjálfan mig í gegnum gleraugu þjóðfélagsrýninnar og ég býst við að svo eigi við um flest samferðafólk mitt í lífskjarakapphlaupinu. Það er því áhugavert að velta því fyrir sér hvers vegna við erum svona gjörn á að draga fólk í dilka og skilgreina hvert annað út frá kyni, atvinnu eða áhugamálum. Þó er jafnvel enn áhugaverðara að velta því fyrir sér hvers vegna dilkarnir sjálfir eru jafn óhagganlegir og þeir virðast vera og hvort ekki sé rúm fyrir nýjar skilgreiningar. Í stuttu máli að taka nettan póstmódernískan pakka á þetta.

Það má þykja nokkuð ljóst að dilkadrátturinn gerir alla söguskoðun jafnt sem félagslega athugun mun þægilegri en ef taka ætti hvert stak út fyrir sig. Auk þess má færa fyrir því mjög haldbær rök að söguskoðun út frá félagslegri skiptingu veiti betri yfirlitssýn á heildarsögu samfélagsins frekar en einsögulegar rannsóknir á einstaklingum. Hinsvegar er erfitt að sjá hvernig hin félagslega skipting hjálpar okkur stökunum í hinu hversdagslega amstri. Í fyrsta lagi útilokar hún að flestu leyti sértækar upplýsingar og þá einna helst þá hvata sem liggja að baki ákvarðanna einstaklinganna. Þá á ég við þá ákvörðun sem leiðir síðar til þess að einstaklingurinn hættir að vera einstaklingur og verður stak í mengi sem er skilgreint út frá heildinni. Í öðru lagi býður dilkadrátturinn upp á mjög hættulega rökleysuröð ályktana,
ályktana sem finnast víða í þjóðfélagsumræðunni. Stjórnmálamenn eru upp til hópa lygarar, karlkyns hárgreiðslumenn eru samkynhneigðir, Frakkar eru vinstrisinnaðir, íþróttamenn stíga ekki í vitið, á Íslandi finnast ljóshærðar fyrirsætur á hverju horni og svona mætti lengi telja.

Þrátt fyrir að staðlaðar félagslegar hópaskiptingar þjóni einstaklingum ekki sérstaklega vel og geti í raun verið hvetjandi fyrir margs konar fordóma, þá eru þessar skiptingar hentugar fyrir ýmsa hópa og samtök. Nærtækasta dæmið eru líklega komandi alþingiskosningar. Stjórnmálaflokkar fylgjast vel með fylgi sínu og þrátt fyrir að Íslendingar séu að sumu leyti einsleit þjóð er langt frá því að við höfum öll sömu hagsmuna að gæta. Ungt menntafólk vill forðast skólagjöld, eldri borgarar vilja tryggja sín réttindi og bændur vilja verja landbúnaðinn. Að geta dregið landsmenn í hentuga hagsmunadilka gerir stjórnmálaflokkum kleyft að kanna hvers konar fylgi þeir geta vænst frá hverjum þessara hópa. Niðurstöðurnar gefa því stjórnmálamönnum hugmynd um hvar þurfi að styrkja ímynd flokksins og hvar þeir standa á sterkum stoðum.

Stjórnmálaflokkar eru svo sannarlega ekki þeir einu sem hagnast af félagslegri skiptingu samfélagsins, auglýsendur standa þeim til dæmis öllu framar. Það er því ólíklegt að dilkadráttunum fækki á komandi árum og áratugum. Hinsvegar verður áhugavert að fylgjast með í hvaða dilkum ég á eftir að lenda er fram líða stundir. Sveitaómagi, viðskiptajöfur, netverji, netleysingi, ljóshærður, dökkhærður, feitur, grannur…