Dregur saman í borginni

Dregur saman í borginniÞað er óhætt að segja að sjálfstæðismenn í Reykjavík hafi margir hverjir verið orðnir ansi þunglyndir vegna ömurlegs gengis flokksins í skoðanakönnunum upp á síðkastið. Á meðan sjálfstæðismenn hafa hamast við að kynna málefni sín og frambjóðendur hefur R-listinn legið í láginni og af einhverjum ástæðum virðist sú taktík R-listans hafa gengið vel í kjósendur því fylgismunurinn hefur farið sívaxandi.

Það er óhætt að segja að sjálfstæðismenn í Reykjavík hafi margir hverjir verið orðnir ansi þunglyndir vegna ömurlegs gengis flokksins í skoðanakönnunum upp á síðkastið. Á meðan sjálfstæðismenn hafa hamast við að kynna málefni sín og frambjóðendur hefur R-listinn legið í láginni og af einhverjum ástæðum virðist sú taktík R-listans hafa gengið vel í kjósendur því fylgismunurinn hefur farið sívaxandi.

Nú virðist hins vegar að ákveðinn vendipunktur hafi átt sér stað og nýjasta skoðanakönnun Gallup sýnir að fylgi R-listans hefur lækkað úr 61% niður í 55% og að Sjálfstæðisflokkurinn hafi klórað í bakkann og sé nú með rétt tæplega 40% stuðning í borginni. Enn er munurinn mikill en hið mikilvæga fyrir sjálfstæðismenn hlýtur að vera að þróunin virðist hafa snúist við og leiðin liggur upp á við. Þetta mun auka sjálfstraust sjálfstæðismanna og slíkt er nauðsynleg forsenda þess að kosningastarfið sjálft sé líflegt og aðlaðandi.

Annað sem aukið hefur sjálfstraust hjá stuðningsmönnum flokksins er góð frammistaða Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í fjölmiðlum upp á síðkastið. Það er ekki launung að sumir frambjóðendanna hafa verið í nokkrum erfiðleikum með að halda sínum hlut í opinberri umræðu og e.t.v. verið ónægilega undirbúnir. Hanna Birna hefur hins vegar sýnt að hún er mjög fær í pólitískum rökræðum og ætti Sjálfstæðisflokkurinn hiklaust að nýta hæfileika hennar í slagnum sem fyrir höndum er. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur einnig margsannað að hann er fullfær um að takast á við hvaða andstæðing sem er í kappræðum en því miður hefur of lítið farið fyrir honum í kosningabaráttunni enn sem komið er. Sjálfstæðisflokkurinn ætti að beita þeim Hönnu Birnu og Guðlaugi Þór, sem eru ungir og ferskir frambjóðendur, og þeim Birni Bjarnasyni og Ingu Jónu Þórðardóttur, sem bæði hafa verulega vigt og yfirburðaþekkingu á málefnunum.

Nú þegar kosningabaráttan er komin á fullt skrið hlýtur að vera mikilvægt fyrir Sjálfstæðismenn að snúa bökum saman því það er ennþá of snemmt að gefast upp. En til þess að sjálfstæðismenn eigi möguleika í þessu stríði er nauðsynlegt að öll skipin sigli í sömu átt. R-listinn á eftir að hefja sína kosningabaráttu fyrir alvöru og ekki verður litið framhjá því að framboðslisti meirihlutans er betur mannaður en fyrir fjórum árum en veikleiki R-listans virðist vera að samstaða innan hans sé minni en þá.

Það er vonandi að kosningabaráttan verði meira spennandi en skoðanakannanir benda til. Lykillinn að því er að framboðin einhendi sér í að kynna málefnin og leggi áherslu á þau – því kjósendur eru ekki kjánar, og kjósa ekki vegna stemmningar eða fatavals frambjóðenda, heldur einmitt vegna stefnumála og framtíðársýnar.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)