Ábyrgð íþróttaforystunnar

Mörg erfið og pínleg mál fyrir íþróttaforystuna hafa komist í kastljósið á síðustu misserum.

Mesta íþróttaveisla veraldarinnar fer fram í Japan og S. Kóreu innan skamms. HM í fótbolta er vitaskuld einhver mesta og skemmtilegasta veisla sem knattspyrnuáhugamenn komast í. Sú ákvörðun FIFA að halda keppnina hinum megin á hnettinum mun þó setja nokkuð strik í reikninginn fyrir evrópska knattspyrnuáhugamenn, enda verða leikirnir háðir um miðja nótt að íslenskum tíma og mun fólk þurfa að færa allverulega fórnir til þess að geta fylgst með leikjunum.

Ákvörðunin um staðsetningu HM 2002 er mjög umdeilanleg og gerast raddir um að pólitísk hrossakaup ráði miklu um slíka ákvarðanatöku sífellt háværari. Raunar hefur íþróttahreyfingin um heim allan fengið á sig fremur ógeðfelldan stimpil á undanförnum árum og nægir þar að nefna mútuhneyksli í kringum ákvörðun Alþjóða Ólympíunefndarinnar um staðsetningu síðustu Vetrarólympíuleika og síðar dómaramútum á sjálfum leikunum.

Peningarnir sem um teflir í íþróttunum hafa margfaldast á undanförnum áratug og samfara því eykst freistni forráðamanna sambandanna til þess að standa að óheiðarlega að störfum sínum. Núverandi forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, Sepp Blatter, hefur t.a.m. legið undir margvíslegum ásökunum um mútugreiðslur til atkvæðisbærra fulltrúa á síðasta aðalfundi FIFA. Farah Addo, forseti Knattspyrnusambands Sómalíu, hefur t.a.m. fullyrt að honum hafi verið boðið hundrað þúsund dalir fyrir atkvæði sitt. Kveðst hann ekki hafa þáðst boðið en því er haldið fram að a.m.k. átján atkvæði hafi verið keypt.

Samhliða þessu hafa vaknað miklar spurningar um fjármálaumsýslu FIFA en gjaldþrot auglýsingafyrirtækisins ISL en menn telja að tap FIFA vegna hrunsins gæti numið á bilinu 30 til 300 milljóna dala. Þó virðist fátt ætla að koma í veg fyrir endurkjör Blatter í lok maí nk.

Ljóst er að vinsældir keppnisíþrótta hafa stóraukist á undanförnum árum. Meðal þess sem gerir íþróttir svo aðlaðandi er að flestum þykir íþróttirnar endurspegla hið hreina og óspillta í fari mannsins. Allir eiga að koma jafnir inn á leikvöllinn og annarlega sjónarmið eru víðs fjarri. Þar geta hinir smáu sigrað hina stóru og heiðarleiki og drenglyndi eru í hávegum höfð. Mikilvægt er að forráðamenn íþróttahreyfingarinnar hegði sér ekki á þann veg að skuggi falli á hinn jákvæða boðskap sem íþróttirnar geta fært heiminum.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.