Háðuleg útreið Fylkingar

Kosningar til Alþingis fóru fram í gær. Helstu tíðindin urðu þau að Samfylking hlaut háðulega útreið en Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri-grænir unnu mikinn sigur.

Kosningar til Alþingis fóru fram í gær. Helstu tíðindin urðu þau að Samfylking hlaut háðulega útreið en Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri-grænir unnu mikinn sigur. Eins og spáð var hér í síðustu viku hefur allt bröltið á vinstri vængnum aðeins leitt til minna Alþýðubandalags og aðeins stærri krataflokks. Það er því með ólíkindum að heyra talsmenn Fylkingarinnar tala um það fullum fetum að vel megi við úrslitin una því í öllu falli sé búið að sameina alla vinstri menn í einn flokk. En hvað með þá 16.000 vinstri menn sem greiddu Vinstri-grænum atkvæði sitt?

Þá vekur frammistaða fjölmiðla furðu, eins og endranær þegar Samfylkingin er annars vegar. Mest er gert úr því að Framóknarflokkurinn hafi tapað þremur þingmönnum og sé kominn niður í sitt meðalfylgi. Reynt er að láta líta út fyrir að 26,8% fylgi Fylkingarinnar sé vel viðunandi. Já, einmitt það! En hvað með ummæli Margrétar Frímannsdóttur við upphaf kosningabaráttunnar þess efnis að Samfylkgin stefndi að 35-40% fylgi í kosningunum. Rúmri viku fyrir kosningar sagði Jóhanna Sigurðardóttir að 35% fylgi yrði sigur. Þegar ljóst var hvert stefndi síðustu dagana reyndu Fylkingarmenn að takmarka tjón sitt með því gefa það út að færi fylgið yfir 30% yrði það þokkaleg útkoma fyrir þetta unga stjórnmálaafl. En Fylkingin var ekki einu sinni nálægt því, og samt er því haldið á lofti að góður árangur hafi náðst.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.