Þríleikur í Borgarleikhúsinu

Einhver afkáralegur skjálfti virðist hlaupinn í borgarstjóra R-listans. Hún hringsnýst um sjálfa sig í þremur aðgreindum málum og virðist oft ekki vita hvort hún sé að koma eða fara.

Einhver afkáralegur skjálfti virðist hlaupinn í borgarstjóra R-listans. Hún hringsnýst um sjálfa sig í þremur aðgreindum málum og virðist oft ekki vita hvort hún sé að koma eða fara.

Í Eyjabakkamálinu hefur Ingibjörg skyndilega ákveðið að lögformlegt umhverfismat skuli fara fram, þótt fyrir löngu hafi verið gert ráð fyrir virkjanaframkvæmdum á svæðinu og Alþingi sjálft gefið leyfi til þess.

Í Laugardalsmálinu hefur hún þá skoðun að nýta eigi gróðurlendið þar undir bíó Jóns Ólafssonar, kosningsjóðs R-listans. Ástæðuna segir hún vera þá, að búið var að ráðstafa lóðinni undir atvinnurekstur fyrir löngu. Ekki alveg sami umhverfissinninn hér eins og á ferð sinni um Austurland með stjórn Landsvirkjunar.

Í flugvallarmálinu hefur borgarstjóri hafið persónulegt stríð við ráðherra samgöngumála vegna endurbóta á flugvellinum og lætur sem hann ætli að þröngva flugvellinum upp á Reykvíkinga. Síðustu fimm árin hefur Ingibjörg setið í embætti borgarstjóra og hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá henni um völlinn fyrr en nú.

Skyldi ástæða þessarar hringekju borgarstjórans vera sú, að senn líður að því að Fylkingin velji sér leiðtoga. Það ber óneitanlega vitni um þverrandi pólitískan styrk Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, að hún skuli þurfa að vekja athygli á sér með upphlaupum af þessu tagi. Nafn Jóns Baldvins Hannibalssonar er enda orðið æ háværara í umræðunni um leiðtoga vinstrimanna.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.