Um réttmæti Hæstaréttardóma

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 286/1999, sem varðaði meinta kynferðislega áreitni föður gagnvart dóttur sinni, var kveðinn upp í siðustu viku og hefur sýknuniðurstaða réttarins vakið mikil viðbrögð. Skrifaðar hafa verið greinar í dagblöð og einnig munu póstsendingar vera í gangi á Netinu, til að mótmæla niðurstöðunni.

Dómur Hæstaréttar í máli nr. 286/1999, sem varðaði meinta kynferðislega áreitni föður gagnvart dóttur sinni, var kveðinn upp í siðustu viku og hefur sýknuniðurstaða réttarins vakið mikil viðbrögð. Skrifaðar hafa verið greinar í dagblöð og einnig munu póstsendingar vera í gangi á Netinu, til að mótmæla niðurstöðunni. Í þessu dómsmáli, eins og flestum, greinir menn á um réttmæti niðurstöðu Hæstaréttar. Meira að segja ríkti ekki einhugur innan Hæstaréttar um niðurstöðuna og skiluðu tveir dómarar sératkvæði, þar sem þeir vildu staðfesta sakfellingu héraðsdóms. Ekki vogar Deiglan sér að leggja mat á réttmæti úrskurðarins en telur þó rétt að drepa á örfáum atriðum.

Fyrst ber að skoða reifun dómsins, sem finna má á heimasíðu Hæstaréttar:

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni D. Ekki var talið að ákæruvaldinu hefði tekist, gegn eindreginni neitun X, að færa fram vafalausa sönnun um sekt hans samkvæmt verknaðarlýsingu í ákæru. Þá var ekki talið unnt að koma við öðrum refsiákvæðum en þeim, er greindi í ákæru, um þá framkomu X gegn D, sem hann hafði viðurkennt. Var X sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Gagnrýnendur Hæstaréttar í þessu máli segja réttlætiskennd sinni misboðið með niðurstöðunni. Fullvíst má telja að þannig sé flestum þeim, sem tapa máli fyrir Hæstarétti, innanbrjósts. Flestir standa í málarekstri fyrir dómstólum vegna þess að þeir telja réttlætið sín megin. Réttarkerfinu er ætlað að leysa úr ágreiningsefnum manna með friðsamlegum hætti og koma þannig í veg fyrir að borgararnir taki lögin í sínar eigin hendur. Þess vegna verða málsaðilar að una niðurstöðu Hæstaréttar. Það yrði mikil öfugþróun ef mál yrðu rekin í fjölmiðlum og dómarinn væri almenningsálitið.

Mál af því tagi, sem hér um ræðir, eru ákafleg viðkvæm og tilfinningaþrungin. Niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 286/1999 er byggð á skorti á sönnunum fyrir refsiverðu athæfi ákærða og er sú niðurstaða í samræmi við þá meginreglu, að maður sé saklaus uns sekt hans sé sönnuð. Ástæða þessarar meginreglu – og afar mikilvægt er að fólk átti sig á þessu – er sú, að betra er að sekur maður sé sýknaður, en að saklaus maður sé dæmdur sekur og hljóti refsingu.

Hins vegar er athyglisvert að bera saman sönnunarkröfur í þessu máli og tveimur nauðgunarmálum, sem fjallað var um í 1. tbl. 2. árg. Deiglunnar frá 13. febrúar sl. (sjá: >>> Eldri tölublöð 1999). Þar var sönnunarbyrðinni því sem næst snúið við og menn dæmdir sekir á veikum sönnunargrunni, að því er virtist. Þetta voru mál nr. 309/1998 og nr. 155/1998. Lesendur Deiglunnar eru kvattir til að kynna sér þessa dóma, sem finna má á heimasíðu Hæstaréttar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.