Hver er heimildarmaður Deiglunnar?

Málefni íslenska landsliðsins í knattspyrnu og aðdragandi starfsloka Guðjóns Þórðarsonar komust í brennidepil um helgina. Víkverji Morgunblaðsins sunnudaginn 7. nóvember vakti þá athygli á skrifum Deiglunnar um þetta mál.

Málefni íslenska landsliðsins í knattspyrnu og aðdragandi starfsloka Guðjóns Þórðarsonar komust í brennidepil um helgina. Víkverji Morgunblaðsins sunnudaginn 7. nóvember vakti þá athygli á skrifum Deiglunnar um þetta mál. Það er vissulega gleðiefni að enn séu til þeir blaðamenn sem áhuga hafa á að komast til botns í málum og finnst það skipta máli að menn komist ekki upp með innantóm svör við fjölmiðla. Víkverji lætur þess getið í pistli sínum að ritstjóri Deiglunnar sé nátengdur aðila málsins, Guðjóni Þórðarsyni, og vegna þess hafa ýmsir dregið þá ályktun, að Guðjón sé heimildarmaður Deiglunnar í umfjölluninni um landsliðsmálin.

Til að koma í veg fyrir þann miskilning skal tekið skýrt fram, að þær ályktanir Deiglunnar, sem koma fram í pistlum 29. október og 4. nóvember, eru algjörlega byggðar á yfirlýsingum formanns KSÍ í fjölmiðlum. Reyndar vísar Deiglan til óstaðfestra heimilda varðandi mismunandi launakjör fráfarandi og nýráðins þjálfara landsliðsins, en þeir heimildarmenn eru ritstjóra Deiglunnar óskyldir með öllu. Eins og fyrr segir, þá byggir umfjöllun Deiglunnar fyrst og fremst á því sem fram hefur komið í öðrum fjölmiðlum, einkum yfirlýsingum formanns KSÍ. Til gamans skulum við rekja okkur í gegnum málið, lið fyrir lið:

1) Formaður KSÍ lýsir því yfir síðla sumars að sambandið geti ekki keppt við gylliboð erlendra félagsliða í Guðjón Þórðarson. Þessi yfirlýsing var ekki rökstudd á nokkurn hátt.

2) Þegar Stoke-málið s.k. kemst í hámæli, segir formaður KSÍ, að ekki verði tekin ákvörðun um ráðningu landsliðsþjálfara fyrr lendingu hefur verið náð í því máli. Ekki er hægt að skilja þessa yfirlýsingu á annan veg en þann að vilji sé fyrir því hjá forystu KSÍ að hafa Guðjón Þórðarson áfram í starfi.

3) Formaður KSÍ lýsir því yfir í Morgunblaðinu þriðjudaginn 25. október sl. að málið sé að falla á tíma og á þá væntanlega við ráðningu Guðjóns í starf landsliðsþjálfara. Þessi yfirlýsing er undarleg í því ljósi að yfirleitt er það verkkaupi sem gerir verksala tilboð en ekki öfugt, og því hefði það staðið KSÍ næst að gera Guðjóni tilboð svo niðurstaða fengist í málinu. Spyrja má: Af hverju veigraði formaður KSÍ sér við að gera Guðjóni tilboð á þessum tímapunkti? Var hann kannski hræddur um að því yrði tekið?

4) Mánudaginn 24. október virtist sem Stoke-málið væri úr sögunni og næstu daga benti ekkert til annars. Í samræmi við þá yfirlýsingu formanns KSÍ, sem fram kemur í lið 2) hér að ofan, hefði KSÍ þá ekki átt leggja fram tilboð hið snarasta? Eggert Magnússon sagði á blaðamananfundi 31. október að það hefið verið einlægur vilji hjá forystu KSÍ að halda Guðjóni í starfi. Telja lesendur Deiglunnar það bera vott um einlægan vilja að gera þessum eftirsótta starfsmanni ekki einu sinni tilboð um atvinnu??

Á þessu má sjá að ekki þarf neinar innanbúðarheimildir til að draga þær ályktanir sem Deiglan dró þann 4. nóvember sl. Staðreyndir málsins liggja fyrir: KSÍ gerði Guðjóni Þórðarsyni ekki tilboð um að halda áfram þjálfun íslenska landsliðsins. Það ber ekki vott um eindreginn vilja forystumanna til þess að halda farsælasta þjálfara landsliðsins frá upphafi í starfi.

Að lokum vill Deiglan taka það fram, að ráðning landsliðþjálfara er algjörlega mál Knattspyrnusambands Íslands. Meira að segja er vel hugsanlegt að Guðjón Þórðarson hefði ráðið sig til starfa hjá Stoke, þótt KSÍ hefði gert honum tilboð. Formaður KSÍ ætti hins vegar að sjá sóma sinn í því að greina frá staðreyndum málsins í stað þess að skáka í skjóli innantómra yfirlýsinga. Hvað varðar orðróm um mismunandi laun fráfarandi og nýráðins landsliðsþjálfari, er auðvelt fyrir formann KSÍ að koma þeim málum á hreint í eitt skipti fyrir öll.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.