Enn eitt gróðabrallið hjá misheppnaða athafnamanninum

Síðastliðinn sunnudag skemmti Deiglan sér að vanda yfir þætti Egils Helgasonar á Skjá einum, Silfri Egils. Þar voru mættir þeir Helgi Hjörvar, forseti borgarstjórnar, og Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Síðastliðinn sunnudag skemmti Deiglan sér að vanda yfir þætti Egils Helgasonar á Skjá einum, Silfri Egils. Þar voru mættir þeir Helgi Hjörvar, forseti borgarstjórnar, og Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Forseti borgarstjórnar virtist hafa komið hjólandi í þáttinn, því hann var íklæddur forláta skjólgalla, eins og seldir eru í mörgum útivistarbúðum. Það er lofsvert framtak hjá Helga Hjörvar, að tileinka sér óhefðbundnar leiðir til að komast á milli staða, allir vita nú hvernig strætó-kerfið virkar.

En meðal þess sem rætt var í Silfri Egils voru tilraunir Helga Hjörvars til að stofna fyrirtækið Línunet hf. í nafni og fyrir fjármuni Reykjavíkurborgar. Atvinnurekstur Helga Hjörvar komst í kastljósið fyrir síðustu kosningar og Línunet-ævintýrið var frumraun hans í stórfyrirtækjarekstri. Hæfileikar hans í þeim geira virðast álíka takmarkaðir og í rekstri smáfyrirtækja. Spilaborgin sem Helgi byggði í kringum Línunet hrundi á einni nóttu og 200 milljónir af útsvarsfé Reykvíkinga grófust í rústunum. Fyrir þá sem ekki þekkja málið er hægt að lesa nánar um það hér.

R-listinn stærir síg nú af því að hafa varið 70 milljónum króna úr borgarsjóði í að „leysa“ vanda leikskólanna. Það er hjákátlegt þegar hugsað er til þess, að 200 milljónir úr þessum sama sjóði runnu í enn einn draum Helga Hjörvar um að verða stórkarl í viðskiptum. Og það er enn einn draumurinn sem endar í martröð – fyrir alla nema hann. Áður voru það einungis viðskiptamenn og starfsmenn Helga sem sátu í súpunni, nú eru það allir Reykvíkingar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.