Í hverju felst ágóðavonin?

Samkvæmt fréttum í fjölmiðlum er töluverður áhugi hér á landi á hlutabréfum í enska knattspyrnufélaginu Stoke City. Hlutur í Stoke Holding, eignarhaldsfélagi íslensku fjárfestanna, verður væntanlega boðinn til sölu hér á landi innan skamms. Deiglan veltir því fyrir sér hvort um vænlegan fjárfestingarkost sé að ræða, m.ö.o. í hverju ágóðavonin felist.

Samkvæmt fréttum í fjölmiðlum er töluverður áhugi hér á landi á hlutabréfum í enska knattspyrnufélaginu Stoke City. Hlutur í Stoke Holding, eignarhaldsfélagi íslensku fjárfestanna, verður væntanlega boðinn til sölu hér á landi innan skamms. Deiglan veltir því fyrir sér hvort um vænlegan fjárfestingarkost sé að ræða, m.ö.o. í hverju ágóðavonin felist.

Í fyrsta lagi er ljóst að fjárfestingin er fljót að borga sig ef liðið kemst upp um deild. Komist liðið ekki upp um deild á allra næstu árum, er lítil sem engin von um ágóða af hlut í félaginu, þvert á móti. Takist liðinu hins vegar á næstu fimm árum að koma sér tryggilega fyrir í 1. deild er fjárfestingunni líklega borgið, og vel það.

Í öðru lagi er ágóðavon fólgin í því að fleiri áhorfendur komi á leiki liðsins. Þeir er nú um 11.000 að meðaltali en voru um 15.000 fyrir aðeins tveimur árum. Ef liðinu fer að ganga betur og það fer að leika skemmtilegri knattspyrnu, má búast við fleiri áhorfendum. Því fleiri áhorfendur, því meiri tekjur – og verðmæti hlutabréfanna eykst.

Í þriðja lagi er mikil hagnaðarvon fyrir eigendur fólgin í kaupum og sölu á leikmönnum. Meirihlutinn í Stoke City var keyptur á 3,5 milljónir punda, að því er fram hefur komið i fjölmiðlum, en það er aðeins einni milljón meira en Wimbledon greiddi Brentford fyrir Hermann Hreiðarsson fyrir skömmu. Það gefur augaleið að með kaupum á efnilegum leikmönnum, sem verða síðan góðir knattspyrnumenn hjá félaginu, má þannig búa til mikil verðmæti.

En óvissuþátturinn er gífurlega stór, enda knattspyrnan óútreiknanleg íþrótt. Gengi liðsins inni á vellinum ræður öllu um gengi félagsins fjárhagslega. Knattspyrnan, sem eitt sinn var bara leikur, er orðin barátta þar sem hvert mark er milljóna virði og góðir leikmenn þyngdar sinnar virði í gulli. Svo einfalt er það.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.