Ár svíns og evru

Runnið er upp ár sem Kínverjar kenna við svínið og völvan spáir að verði sviptingasamt í pólitíkinni. Þá gæti brugðið til beggja vona í veðri á árinu. En auk svína, stjórnmála og veðurs gæti 2007 líka orðið ár evrunnar.

Runnið er upp ár sem Kínverjar kenna við svínið og völvan spáir að verði sviptingasamt í pólitíkinni. Þá gæti brugðið til beggja vona í veðri á árinu. En auk svína, stjórnmála og veðurs gæti 2007 líka orðið ár evrunnar.

Hugmyndin um að taka upp eða nota evruna í auknum mæli hér á landi hefur átt vaxandi fylgi að fagna. Það byggir fyrst og fremst á þeirri einföldu staðreynd að hún er mun stöðugri gjaldmiðill en krónan og að slíkum stöðugleika fylgi miklir kostir. Íslenska krónan er ein af smæstu gjaldmiðlum heims og það þarf lítið til að gengið sveiflist til. Bent hefur verið á að þetta sé hindrun fyrir viðskiptalífið, einkum útflutningsgreinarnar og eins fæli krónan erlenda fjárfesta frá því að fjárfesta hér á landi.

Gengi krónunnar er ekki lengur handstýrt af stjórnmálamönnum, heldur ræðst það á markaði. Það þarf því ekki mikið til að gengið fari á flakk, með tilheyrandi erfiðleikum og raski. Flestir muna eflaust enn eftir falli krónunnar á nýliðnu ári í kjölfar þess að birtar voru skýrslur um íslenskt efnahagslíf og að horfur á lánshæfismati ríksins hefðu breyst. Krónan og hlutabréfaverð féllu samstundis. Þá voru birtar fréttir af því að norski olíusjóðurinn hefði tekið sér skortstöðu í íslensku krónunni, m.ö.o veðjað á að hún myndi falla. Það þarf oft ekki mikið til þegar um lítinn gjaldmiðil er að ræða. Fyrirbæri eins og íslenska krónan hefur kannski gildi í okkar huga, en fyrir fjárfestingasjóði og fjársterka aðila erlendis er hún ekkert annað en möguleg leið til að græða peninga. Það er ekki erfitt að skilja afstöðu erlends fjárfestis, sem er að velta því fyrir sér hvort hann ætti að fjárfesta hér á landi en fellur frá því þegar hann sér að það þarf ekki meira en eins og eina skýrslu til að krónan falli.

Þrátt fyrir þetta hefur umræðan um að taka upp annan gjaldmiðil, t.d. evruna, ekki verið jafnopin og æskilegt væri, sem skýrist sennilega af því hve nátengt málið er Evrópusambandsaðild Íslands. Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi viðskipta- og iðnaðarráðherra, varpaði t.d. fram þeirri hugmynd í pistli á heimasíðu sinni í fyrra hvort unnt væri að taka upp evruna án þess að ganga í Evrópusambandið. Ýmsir álitsgjafar þjóðarinnar náðu ekki upp í nef sér fyrir hneykslun á því hve vitlaus sú hugmynd væri, því það væri ekki hægt að taka upp evruna án þess að ganga í ESB. Það væri bara ekki hægt og þar með væri hægt að hætta að tala um þessa bansettu evru!

Það er samt langt í frá aðalatriðið í málinu hvað siða- og reglumeistarar Evrópusambandsins vilja fyrir sinn snúð gegn því að leyfa upptöku evru. Aðalatriði er að evran mun sennilega halda áfram að lauma sér inn í íslenskt samfélag, eins og hún hefur verið að gera. Menn geta fengið launin sín í evrum, tekið lán í evrum og fyrirtæki geta gert upp í evrum. Miðað við nýjustu fréttir hyggjast fyrirtæki ætla að nýta sér þennan möguleika, þótt seðlabankastjóri hafi sagt að það hafi ekki verið ætlunin upphaflega. Það er kannski ágætis dæmi um smæð krónunnar og vanda þess að halda úti sérstökum gjaldmiðli að ef fyrirtækið, sem hét einu sinni KB-banki, en heitir nú Kaupþing, tæki ákvörðun um að gera upp í evrum – sem þeir eru sagðir hafa hug á – myndi það hríðfella krónuna með tilheyrandi afleiðingum.

Vissulega hefði það sína ókosti að kasta krónunni, aðra en að við gætum verið háð aðild að skriffinnskubákninu í Brussel ef við vildum taka upp evru. Við værum að missa mikilvægt hagstjórnartæki og yrðum háð vaxtaákvörðunum Seðlabanka Evrópu, sem munu ekki alltaf vera sniðnar að aðstæðum hér á landi. Málið er þó ekki endilega svona svarthvítt, því hugsanlega má fara einhverja millileið í þessu. Björn Rúnar Guðmundsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum, hefur t.d. kynnt hugmynd, sem gekk í stuttu og einfölduðu máli, út á að taka upp peningalaust hagkerfi, þar sem evran yrði lögbundin mynt. Þannig næðum við að nýta stöðugleika evrunnar án þess að ganga í myntbandalag Evrópusambandsins og Seðlabankinn sæi enn um vaxtaákvarðanir hér á landi.

Eflaust má hugsa sér ýmsar leiðir til að nálgast þessi mál. Aðalatriðið er samt að á meðan krónan er jafnóstöðug og raun ber vitni, á stöðugur gjaldmiðill á borð við evruna eftir að halda áfram að læða sér inn í hagkerfið.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.