Risasamrunar stjórnmálaársins

Þegar líður að kosningum dregur oft til tíðinda á stjórnmálasviðinu. Flokkar sameinast og klofna. Gamlir þingmenn hætta, einstaklega vondir þingmenn falla í prófkjörum og utanveltubesefar reyna koma sér á lista hjá slappari framboðum.

Þegar líður að kosningum dregur oft til tíðinda á stjórnmálasviðinu. Flokkar sameinast og klofna. Gamlir þingmenn hætta, einstaklega vondir þingmenn falla í prófkjörum og utanveltubesefar reyna koma sér á lista hjá slappari framboðum.

Stærsti og frægasti risasamruni seinasta árs var auðvitað samruni Frjálslynda flokksins og Nýs afls. Margrét Sverrisdóttir er reyndar ekki sátt við þessa tilhögun og vill meina að flokkurinn sé ekki nógu stór fyrir bæði hana og Jón Magnússon. Það mun vera sannleikskorn í þessu, því stór er hann vissulega ekki.

Í öðru lagi ber að nefna sameiningu Flokks útlendinga og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Nýi flokkurinn mun heita „Vinstri hreyfingin – grænt framboð“. Ég veit raunar ekki hvort fyrrnefndi flokkurinn hafi verið samsettur af öðru en formanni og nokkrum fréttum um áætlaða stofnun hans. En það er raunar gott og jákvætt að þeir sem að honum standa hafi fundið sér stað í pólitíska litrófinu, því auðvitað ættu útlendingar ekki að þurfa sérflokk, né heldur eru þeir það einsleitur hópur að skoðanir geti mótast í einum flokki.

Það er raunar forvitnileg staðreynd að áður hefur verið til flokkur á Íslandi þar sem mjög margir „útlendingar“ voru í framboði. Hann hét Húmanistaflokkurinn.

Það verður gaman að sjá hvort fleiri risasamrunar séu á leiðinni á kosningavetrinum. Mun Frjálshyggjufélagið ákveða að Íhaldið sé þrátt fyrir allt skásti kosturinn og hver veit nema að Þjóðarhreyfingin kjósi að styðja við bakið á einhverju framboði í næstu kosningum. Og hvaða framboð skildi það nú vera?

Það er raunar mjög forvitnilegt að skoða hvernig samrunar flokka hafi áhrif á fylgið eftir á en niðurstaðan verður sjaldan sú að fylgi þeirra flokka sem fyrir eru leggist saman. Kjósendur meta þá kosti sem standa til boða hverju sinni. Það getur vel verið að einhver þeirra sem bætist við fæli frá kjósendur sem gætu vel hugsað sér að kjósa einhvern annan í framboðinu.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.