Draumur um jól

,,Gleðileg jól! Til fjandans með gleðileg jól! Hvað eru jólin þér annað en reikningar sem þér er ókleift að greiða; tími sem minnir þig á að þú ert árinu eldri, en ekki vitund ríkari en í fyrra; tíminn þegar þú ferð yfir bókhaldið og færð einungis síendurtekin váboð um dauða þinn út úr þessum tólf mánuðum?“

,,Gleðileg jól! Til fjandans með gleðileg jól! Hvað eru jólin þér annað en reikningar sem þér er ókleift að greiða; tími sem minnir þig á að þú ert árinu eldri, en ekki vitund ríkari en í fyrra; tíminn þegar þú ferð yfir bókhaldið og færð einungis síendurtekin váboð um dauða þinn út úr þessum tólf mánuðum? Ef ég fengi nokkru ráðið, sagði Scrooge gremjulega, skyldi hvert það fífl sem gengur um með gleðileg jól á vörunum verða soðið í sínum eigin jólabúðingi og jarðað með jólaviðarstöngul í gegnum hjartað. Sá ætti fyrir því!” Þetta hefur Ebenezer Scrooge að segja um jólin í ævintýrinu Jóladraumi eftir Charles Dickens.

Jólin eru ein stærsta og mikilvægasta hátíð kristinna manna. Hátíðin er haldin til að heiðra minningu fæðingar Jesú Krists. Jól eru haldin alls staðar í hinum kristna heimi og jafnvel víðar. Þau eru þó ekki á sama tíma alls staðar. Til dæmis hafa ekki allir heilagt frá klukkan 18 á aðfangadag jóla, líkt og tíðkast hér á Íslandi. Uppruni jólanna er rakinn til sólhvarfahátíða heiðinna manna. Kristnir menn ákvörðuðu að Jesú hefði fæðst um þetta leyti og með því að setja jólin á svipaðan tíma og þessi heiðna hátíð glötuðu menn ekki miðsvetrarhátíðinni þó þeir skiptu um trú.

Með hverju árinu sem líður er eins og jólin glati meira gildi sínu. Fólk æðir um með tryllingslegt augnaráð í leit að hagstæðustu kjörunum á risaflatskjá og það tekur því varla lengur fyrir verslanir að taka niður jólaskrautið því þær byrja hvort eð er að skreyta fljótlega aftur.

Gildi jólanna ætti ekki að vera fólgið í því að keppast um að gefa dýrar og flottar gjafir og sofna svo yfir borðhaldinu á aðfangadag, úrvinda af þreytu eftir jólatörnina. Jólin eiga að snúast um það sem gefur lífinu raunverulegt gildi, að eyða tíma með ástvinum okkar og njóta stundanna saman. Jólin eiga að snúast um ást, gleði og frið; það sem býr innra með okkur. Jólin eiga að vera hátíð ljóss og fríðar, jafnvel fyrir þá sem trúa ekki á Frelsarann. Ekki veitir af á þeim tímum sem við lifum á.

Í lok sögunnar um Ebenezer Scrooge náði jólaandinn til hans. Það þurfti að vísu töluvert til; þrjár vofur og gífurlegan sannfæringarkraft. Við skulum leyfa jólaandanum að ná til okkar líka og muna eftir huglægu verðmætunum sem jólin búa yfir. Á jólunum skulum við hugsa um náungakærleikann og þakka fyrir allt það góða sem við höfum.

Megi Guð gefa ykkur gleðileg jól!

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.